Innlent

Íslendingur í Lundarháskóla: „Maður veit ekkert“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Töluverður viðbúnaður er við Háskólann í Lundi eftir að hótunarbréf barst nemendum.
Töluverður viðbúnaður er við Háskólann í Lundi eftir að hótunarbréf barst nemendum. vísir/googlemaps
„Þetta er óþægilegt. Maður veit ekkert. Maður verður eiginlega að túlka þetta eins og það sé einhver alvara á bakvið þetta og ekki hætta sér í einhverja vitleysu,“ segir Jón Þórir Þorvaldsson, nemandi í umhverfisverkfræði við Háskólann í Lundi í Svíþjóð.

Háskólanum var lokað í dag vegna hótunar sem barst nemendum í gærmorgun. Lögregla lítur málið alvarlegum augum, en segist þó ekki sjá að um raunverulega hættu að ræða. Skólanum hafi verið lokað af öryggisástæðum. Jón Þórir var að læra ásamt samnemendum sínum þegar hann fékk upplýsingar um málið. Þá hélt hann að um grín hafi verið að ræða.

„Fyrsta hugsun var sú að þetta hefði verið eitthvað fylleríisgrín. Svo kom meiri alvarlega þegar maður fékk skilaboðin frá skólanum, að skólanum hefði verið lokað,“ segir hann.

Jón Þórir Þorvaldsson.Mynd/Andreas Wernersson
Hann segist rólegur yfir málinu en ætlar ekki að hætta sér í skólann í dag. Hann vonast þó til komast í skólann á morgun. 

„Ég missi af þremur fyrirlestrum í dag en ég veit ekki hvort maður eigi eitthvað að hætta sér þangað niðureftir að ástæðulausu.“

Hótunin birtust nemendum á sænska samskiptamiðlinum Jodel, sem hannaður er sérstaklega fyrir háskólanemendur, en smáforritið gerir fólki kleift að senda nafnlaus skilaboð til allra þeirra innan sjö kílómetra radíusar. 

Í hótunarbréfinu segir: „Sum ykkar eru ágæt. Farið ekki í skólann á morgun ef þið eruð í Lundi. Fylgist með fréttum í fyrramálið.“  Hótunin er nánast samhljóða þeirri sem árásarmaðurinn í Oregon sendi frá sér í byrjun mánaðar, rétt áður en hann skaut níu háskólanemendur til bana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×