Erlent

Íslendingur í Brussel: „Mikið af blóði og sært fólk“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sigrún Kristjánsdóttir var stödd í flugstöðinni þegar tvær sprengingar urðu.
Sigrún Kristjánsdóttir var stödd í flugstöðinni þegar tvær sprengingar urðu. vísir/twitter
„Maður sér bara og heyrir læti, sér eldglæringar og brothljóð og fólk að hlaupa út öskrandi þegar það kemur önnur sprenging. Þannig að maður reynir bara að komast út eins og maður getur," segir Sigrún Kristjánsdóttir, sem stödd var Zaventem flugvellinum í Brussel í morgun.

Tvær öflugar sprengingar urðu í flugstöðvarbyggingunni á áttunda tímanum. Fregnir eru enn óljósar en staðfest hefur verið að einn er látinn og fjölmargir særðir. „Maður sá haug af fólki koma út hlaupandi, mikið af blóði og sært fólk," segir Sigrún og bætir við að um hafi verið að ræða gríðarlega sprengingu.

 „Ég hef aldrei upplifað annað eins, en sem betur fer hef ég ekki verið í sprengingu áður. Flugstöðin er þvílíkt skemmd," segir hún.

Samkvæmt upplýsingum frá Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, var innritun í vél flugfélagsins frá Keflavík til Brussel ekki hafin þegar sprengingin átti sér stað. Áætlað var að vélin færi frá Brussel klukkan 11.45 en því flugi hefur verið frestað og haft hefur verið samband við alla farþega, að sögn Guðjóns.

Frekari upplýsingar um málið hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×