Erlent

Íslendingur í Austur-Úkraínu: Hér er mikil hræðsla

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Íslendingur, sem dvelur í austurhluta Úkraínu, segir að uppreisnarhópar leggi nú kapp á að sprengja upp friðarsáttmála sem skrifað var undir í Genf í síðustu viku vegna stigvaxandi átaka í landinu. Hann segir mikla hræðslu á svæðinu. 

Fulltrúar Evrópusabandsins, Bandaríkjanna, Úkraínu og Rússlands skrifuðu undir samkomulagið. Lítið virðist þó hafa breyst frá því það var undirritað, og í dag sakaði utanríkisráðherra Rússlands stjórnvöld í Kænugarði um að brot á samningnum með því að grípa ekki til aðgerða til að stöðva ólöglega uppreisnarhópa og öfgaþjóðernissinna, sem hann segir ráða lögum og lofum í austurhéruðunum.

Hermann Valsson er búsettur í borginni Sumy. Hann segir að fólk óttist að uppreisnarhópum takist að fella friðarsáttmálann úr gildi. 

„Það er mikil hræðsla í fólki. Það eru mörg öfl sem eru að reyna að sprengja um sáttmálann sem var gerður í Genf. Þá erum við að horfa til aðskilnaðarsinna, úkraínskra öfgahópa og hersins,“ segir Hermann.

Forsetakosningar verða í Úkraínu 25. maí næstkomandi, en síðan Viktor Janókóvitsj forseta var steypt af stóli hefur Olexander Tjortjinov verið settur forseti í bráðabyrgðastjórn landsins. Hermann segir fólk binda miklar vonir við kosningarnar, en marga óttast að stríð brjótist út áður en hægt verður að ganga til kosninga. 

„Grimmdin og hræðslan í austurhluta Úkraínu er vegna þess að öfgahóparnir eru að reyna að sprengja allt upp áður en niðurstöður kosninganna liggja fyrir. Það er bara vonandi að það gerist ekki.“ segir Hermann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×