Innlent

Íslendingur horfinn í Danmörku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd af vef TV2 í Danmörku
Mynd af vef TV2 í Danmörku
Danska lögreglan leitar 39 ára karlmanns með íslenskt nafn, sem var til heimilis í Kolding í Danmörku. Ekkert hefur sést til hans í meira en mánuð. Lögreglan á Suðaustur Jótlandi lýsti í morgun eftir manninum. Hann heitir Jónas Elfar Birgisson og var skrásettur til heimilis að Stejlbergsvej 17 í Kolding, að því er fram kemur á vef TV2 í Danmörku.

Fram kom í upplýsingum frá dönsku lögreglunni að Jónas hefði yfirgefið heimili sitt án peninga, skilríkja eða síma. Hann sást síðast þann 18. febrúar síðastliðinn.

Jónasi er lýst þannig að hann sé með dæmigert danskt útlit, 39 ára, um það bil 175-180 sentimetrar að hæð. Hann er með axlarsítt dökkt hár sem er mjög oft í tagli. Í lýsingunni kemur einnig fram að hann tali dönsku með íslenskum hreim.

Lögreglan hefur verið í sambandi við sjúkrahús vegna leitarinnar að manninum en það hefur ekki skilað árangri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×