Sport

Íslendingur heimsmeistari í réttstöðulyftu

Samúel Karl Ólason skrifar
Júlían á verðlaunapalli.
Júlían á verðlaunapalli.
Kraftlyftingamaðurinn Júlían K. Jóhannsson setti Evrópumet þegar hann bar sigur úr býtum í réttstöðulyftu á HM í kraftlyftingum í Orlando í dag. Júlían keppir í +120 kg flokki og var að keppa á sínu fyrsta heimsmeistaramóti í fullorðinsflokki. Hann náði fimmta sæti í flokknum. 

Í tilkynningu segir að Júlían hafi tvisvar sinnum reynt að bæta sinn persónulega árangur í hnébeygju og í bekkpressu en það hafi ekki gengið. Honum hafi þó gengið betur í réttstöðulyftu, sem er hans besta grein.

„Hann opnaði á 340 kg og fór svo beint í 380 kg í annarri tilraun sem var gild lyfta og glæsilegt Evrópumet unglinga. Í síðustu tilraun freistaði hann þess svo að lyfta 390 kg sem fóru upp, en rétt við lok lyftunnar missti hann jafnvægið og náði ekki að klára lyftuna,“ segir í tilkynningunni.

Júlían endaði í fimmta sæti flokksins með samanlagðan árangur upp á 1.070 kíló.

Sigurvegari í flokknum var Blaine Sumner frá Bandaríkjunum en samanlagður árangur hans var 1200 kíló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×