Innlent

Íslendingur braust inn í tölvu hjá blaðamanni Independent

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Smári McCarthy starfaði með Julian Assange.
Smári McCarthy starfaði með Julian Assange. Vísir/AFP
Smári McCarthy, íslenskur samstarfsmaður Julians Assange, stofnanda WikiLeaks, braust inn í tölvu hjá blaðamanni á blaðinu Independent í fyrra. Tilgangurinn með tölvuinnbrotinu var að ná í 250 þúsund sendiráðsskjöl sem WikiLeaks birti síðar víða um heim í samvinnu við fjölmarga fjölmiðla. Sá hluti af skjölunum sem snerti sendiráðið á Íslandi var meðal annars birtur í Fréttablaðinu og hér á Vísi.

Assange segir í nýrri bók, sem skrifuð er um ævi hans, að Smári McCarthy hafi gert mistök og látið blaðakonuna fá skjölin. Eftir því sem greint er frá á vefnum Wired uppgötvuðust mistökin þegar að Assange hafði samþykkt að láta Guardian hafa skjölin. Eftir að mistökin komust upp ákvað Smári að brjótast inn í tölvuna hjá blaðakonunni og eyða skjölunum út.

Wired segir að Brooke hafi verið búin að afrita skjölin áður en Smári eyddi þeim út þannig að tölvuinnbrotið var tilgangslaust. Tímaritið segir jafnframt að Smári hafi viðurkennt tölvuinnbrotið. Hann hafi tekið fram að hann hafi haft leyfi til að fara inn í tölvuna hjá Brooke úr annarri tölvu, en ekki til þess að eyða gögnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×