Handbolti

Íslendingarnir með átta mörk á fyrstu átján mínútunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Getty
Rhein-Neckar Löwen fagnaði í kvöld sínum tíunda sigri í röð í þýsku úrvalsdeildinni þegar liðið vann þriggja marka heimasigur á TBV Lemgo, 35-32.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk í leiknum og var næstmarkahæstur í liði Löwen á eftir Andy Schmid sem skoraði ellefu mörk.  Patrick Groetzki skoraði sex mörk eins og Guðjón Valur en aðeins úr sjö skotum. Guðjón Valur þurftu tíu skot til að skora sín sex mörk.  Alexander Petersson var með þrjú mörk úr fimm skotum.  

Rhein-Neckar Löwen hefur 26 stig eins og Flensburg-Handewitt og THW Kiel sem deila toppsætinu með þeim. Öll þrjú liðin hafa unnið þrettán leiki og tapað einum í fyrstu fjórtán umferðunum.

Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson voru allt í öllu í upphafi leiks. Guðjón Valur skoraði fimm mörk á fyrstu tólf mínútum leiksins og Alexander þrjú.

Þegar Guðjón Valur kom Ljónunum í 12-11 eftir tæpar átján mínútur voru íslensku leikmennirnir búnir að skora 11 af 12 mörkum liðsins.

Íslensku strákarnir voru rólegir eftir þetta og Guðjón Valur skoraði ekki aftur fyrr en á lokamínútum leiksins.

Löwen var 19-17 yfir í hálfleik og komst fjórum mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiks.Lemgo-menn náðu að minnka muninn niður í eitt mark um miðjan hálfleikinn en Ljónin voru grimmari í lokin og tryggðu sér nokkuð sannfærandi sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×