Innlent

Íslendingar til sóma um helgina

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
ATP hátíðin fór fram á Ásbrú um helgina
ATP hátíðin fór fram á Ásbrú um helgina fréttablaðið/ernir
„Við vorum á fundi með lögreglunni alla helgina og þeir sögðu að þeir hefðu aldrei upplifað jafn friðsæla Írska daga,“ segir Hallgrímur Ólafsson, skipuleggjandi Írskra daga á Akranesi.

Hann segir hátíðina hafa gengið vel fyrir sig og að ölvun hafi ekki verið of mikil.

„Þetta fór allt saman fram með miklum sóma.“

Að sögn lögreglunnar á Norðurlandi var einnig allt til sóma á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði þrátt fyrir að margt væri um manninn.

Á vef lögreglunnar kemur fram að lögregla hafi stöðvað fjölda bíla á Suðurnesjum til að sinna eftirliti með ölvunarakstri á sama tíma og tónlistarhátíðin ATP var haldin á Ásbrú. Svo reyndist að enginn ökumaður hafði neitt áfengis fyrir akstur.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir að heilt á litið hafi Goslokahátíð í Vestmannaeyjum heppnast afar vel.

„Hátíðin fór bara mjög vel fram. Það voru fjölmargir mættir og veðrið hefur ábyggilega hjálpað mikið til. Það var eitthvað um ölvun en ekkert sem kom til kasta lögreglu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×