Innlent

Íslendingar þrá sólina

Ellý Ármanns skrifar
Kristbjörg Kristjánsdóttir.
Kristbjörg Kristjánsdóttir.
Íslendingar eru margir hverjir langþreyttir á rigningunni sem hefur einkennt veðurfarið hér á landi í allt sumar. Við spurðum Kristbjörgu Kristjánsdóttur hjá Sumarferðum hvort eftirspurnin sé til staðar þegar kemur að sólarlandaferðum hjá landanum.

Hverju eru Íslendingar helst að leita eftir nú þegar rignir nánast daglega hér á landi? „Þeir eru að leita eftir því að komast í sól og sumaryl, hvíla sig frá amstri hversdagsins og njóta sín í þægilegu umhverfi. Sumir vilja liggja á sundlaugarbakkanum og kíkja út á lífið á kvöldin meðan aðrir vilja klífa fjöll og fara snemma að sofa. Allt þetta þarf að vera í boði fyrir þjóð sem fær enga sól svo allir geti fundið sér eitthvað við sitt hæfi," segir Kristbjörg og heldur áfram:

„Það er skylda okkar sem ferðaskrifstofa á Íslandi að bregðast við þessum veðurfarslegu aðstæðum og bjóða upp á fjölbreyttar ferðir á viðráðanlegu verði."

„Við finnum fyrir því að viðskiptahópur okkar er að stækka og þörfin fyrir fjölbreytni í sólarlandaferðum er áskorun sem við tökum fagnandi. Rigningasumrin eru svo sannarlega að hafa áhrif á okkar ferðamenningu hvort sem hún er tímabundin eða komin til að vera."

Ferðirnar seljast hratt upp

„Sumarið hefur verið annríkt og ferðirnar seljast hratt upp. Við höfum verið dugleg að bæta við flugum og gistingum og eigum ennþá dásamlegar síðsumarsferðir til Spánar, Tyrklands og á Tenerife."

Íslendingar þrá sól

„Sumarferðir munum fljúga í allan vetur til Tenerife og Gran Canaria. Flogið er vikulega til Tenerife og frá miðjum janúar verður flogið tvisvar í viku bæði til Tenerife og Gran Canaria en Tenerife er okkar ástsælasti áfangastaður. Fyrsta beina leiguflugið milli Íslands og suður-Tenerife var í desember árið 2005 og var það flug á vegum Sumarferða. Má því segja að Sumarferðir séu frumkvöðlar í reglulegum ferðum til Tenerife," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×