Innlent

Íslendingar tapa háum fjárhæðum í íbúðasvindli

Ásgeir Erlendsson skrifar
Dæmi eru um að Íslendingar hafi tapað mörg hundruð þúsund krónum á íbúðasvindli á netinu. Lögreglan varaði við slíku svindli í dag en rannsóknarlögreglumaður segir útlendinga, búsetta hér á landi, sérstaklega útsetta fyrir svindli sem þessu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vakti athygli á þessu á facebook síðu sinni í morgun og tók dæmi um nýlegar auglýsingar sem birst hafa á íslenskum vefsíðum þar sem íbúðir eru boðnar til leigu en eru ekkert annað en svindl. Gísli Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður, sem rannsakað hefur glæpi sem þessa segir að oft sé ómögulegt að sjá í fyrstu að um svindl sé að ræða.

„Við erum með nýtt dæmi á facebook síðu lögreglunnar þar sem íslenskan er óaðfinnanleg. Þá geri ég ráð fyrir að sá sem er að svindla sem er að svindla hafi afritað einhverja aðra auglýsingu.“

Hann segir brot sem þessi hafi aukist á undanförnum árum.

„Við höfum séð það að þeir sem beita þessum brotum eru farnir að nota íslenskar síður, þ.e heimahýsingar hjá bland.is eða mbl.is. Þessi fyrirtæki hafa engan áhuga á að vera notuð svona en það er auðvelt að skrá eign á svona vef, það er gert útaf hagræðissjónarmiði. Þá er líka auðvelt fyrir þann sem ætlar að svindla að nota sömu tækni. “

Í mörgum tilfellum er erfitt fyrir lögreglu að bregðast við því yfirleitt er brotamaðurinn ekki staddur á Íslandi. 

„Við erum með dæmi þar sem fólk missti hátt undir milljón því það var hópur sem ætlaði að leigja íbúð í París og lenti í sambærilegu.“

Rætt er við Gísla Jökul í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×