Innlent

Íslendingar setji sig í spor Sýrlendinga

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sýrlenskur maður búsettur hér á landi segir mikilvægt að Íslendingar setji sig í spor Sýrlendinga, og að stjórnvöld taki á móti eins mörgum flóttafjölskyldum og hægt er. Íslensk kona sem bjó í Sýrlandi rétt fyrir stríðið segir ótrúlegt hversu mikið aðstæður í landinu hafa breyst síðan þá.

Fjögur og hálft ár eru síðan blóðugt stríð hófst í Sýrlandi. Meira en helmingur þjóðarinnar, eða um tólf milljón manns, hafa þurft að yfirgefa heimili sín og eru ýmist á vergangi eða hafast við í flóttamannabúðum í slæmum aðstæðum.

Björk Håkansson bjó og starfaði í höfuðborginni Damaskus á árinum 2008 til 2010. Þar segist hún hafa lifað venjulegu lífi með fjölskyldu sinni en þau fluttu frá landinu nokkrum mánuðum áður en stríðið braust út.

„Það eru ekki til orð sem geta lýst því hvernig okkur leið í byrjun stríðsins í Sýrlandi í byrjun árs 2011. Við fórum allan tilfinninga og sorgarskalann og erum ennþá mjög miður okkar yfir því hvað það er lítið sem við getum gert svona langt í burtu, segir Björk.

Tugþúsundir flóttamanna komu til Sýrlands frá nærliggjandi löndum á árunum fyrir stríð til að sækja þar um hæli, en Björk vann einmitt við flóttamannaaðstoð þar í landi. Hún segir ótrúlegt hversu hratt aðstæður hafa breyst.

Það í rauninni stendur ekki steinn yfir steini, þetta er orðið gjörólíkt land. Það hafa allir sem við þekkjum orðið fyrir einhverskonar tráma vegna þessa stríðs, allir. Þetta er bara skelfilegt, segir Björk. 

Mohammad Sami þekkir þessar aðstæður af eigin raun. Hann er fæddur og uppalinn í Damaskus í Sýrlandi en hefur verið búsettur hér á landi í þrjú ár. Hann veit ekki hvar fjölskylda hans er niðurkominn.

„Flest þeirra eru nú á flótta, allir á einhvern hátt. Flestir vinir mínir eru í ýmsum löndum og bræður mínir líka. Hluti af fjölskyldunni minni er nú í hættu í Damaskus. Ég veit ekki hvort ég fæ einhvern tímann að fara aftur til Sýrlands, hvort ég hitti eitthvert þeirra aftur eða hvort ég finni húsið mitt. Ég held ekki að neinn eigi skilið svona líf,“ segir hann.

Mohammad er sjálfur sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum og aðstoðar nú fjórar sýrlenskar flóttafjölskyldur sem komu hingað til lands fyrr á árinu að fóta sig í íslensku samfélagi. Hann segir að mikilvægt að íslensk stjórnvöld taki á móti eins mörgum og hægt er.

„Þeir sem horfa og gera ekki neitt ættu að setja sig í þessi spor. Það er sárast að sjá börn deyja - ímyndið ykkur að þetta sé barnið ykkar. Mynduð þið taka því svona létt og horfa bara á það?,“ segir Mohammad.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×