Innlent

Íslendingar ósáttir við stöðu læsis og námsframvindu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Þeir sem Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur rætt við eru sammála um að staða læsis og námsframvindu á Íslandi sé ekki góð.
Þeir sem Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur rætt við eru sammála um að staða læsis og námsframvindu á Íslandi sé ekki góð. Fréttablaðið/GVA
„Það má segja að það geri sér allir grein fyrir því að það þarf að eiga sér stað einhver breyting,“ segir Sirrý Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra, en þau ferðast nú vítt og breitt um landið til þess að kynna Hvítbókina.

„Við erum með íbúafundi um Hvítbókina og um menntamál almennt þar sem bæði kennarar, skólastjórnendur, foreldrar og aðrir sem hafa áhuga á menntamálum mæta og spjalla saman. Illugi fer yfir þau markmið sem hann hefur sett sér í menntamálum og hópurinn ræðir um mögulegar aðgerðir.“

Sirrý segir að vel hafi verið mætt á fundina en leiðangur ráðherra hófst nú í september og mun standa yfir í þrjár vikur. Þegar hefur hann heimsótt Norðurland og hluta Suðurlands. Á sunnudag var fundur í Vestmannaeyjum og á Patreksfirði í gærkvöldi. Seinnipart vikunnar ferðast ráðherra austur á land og kemur svo til með að enda í Reykjavík og nágrenni.

Sirrý Hallgrímsdóttir
Að mati Sirrýjar hafa fundirnir verið ákaflega gagnlegir og í ljós hafi komið að enginn sé sáttur við þann stað sem Íslendingar eru á núna hvað varðar læsi og námsframvindu. Þriðjungur ungra drengja getur ekki lesið sér til gagns að loknu grunnskólanámi og innan við helmingur þeirra sem skrá sig til náms í framhaldsskóla klára það á tilsettum tíma.

En er teymið bjartsýnt á að það takist að snúa þessari þróun við? „Já, með sameiginlegu átaki. Þess vegna þarf að eiga sér stað ákveðin vitundarvakning. Það er meðal annars ástæða þess að ráðherra er að ferðast um landið og spjalla við fólk.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×