Fótbolti

Íslendingar hafa aldrei byrjað betur en Þjóðverjar aldrei verr

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Müller.
Thomas Müller. Vísir/Getty
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hefur fyrir löngu sett met með því að vinna þrjá fyrstu leiki sína í undankeppni EM 2016 en það gengur ekki eins vel hjá heimsmeisturum Þjóðverja.

Þýska liðið hefur „aðeins" náð í fjögur stig út úr fyrstu þremur leikjum sínum í undankeppninni. Það hefur aldrei gerst áður. Það er ekki nóg með að þýska liðið hefur þegar "tapað" fimm stigum þá er markatalan í mínus (-1, 3-4).

Þýskaland tapaði 0-2 á móti Póllandi í fyrri leik sínum þessari törn og náði síðan aðeins 1-1 jafntefli á móti Írlandi í seinni leiknum þar sem að Írarnir jöfnuðu með marki á fjórðu mínútu í uppbótartíma.

Þjóðverjar unnu 2-1 sigur á Skotum í fyrsta leik og eru ofar en Skotar á markatölu í 3. sæti riðilsins. Fyrir ofan þá eru Pólverjar og Írar sem eru með þremur stigum meira eða 7 stig af 9 mögulegum.

„Við höfum auðvitað reiknað með því að fá fleiri stig út úr októberleikjunum. Næst mætum við hinsvegar Gíbraltar og þann leik vinnum við. Við fáum síðan leikmenn til baka úr meiðslum og verðum tilbúnir í slaginn á næsta ári," sagði Joachim Löw, þjálfari þýska liðsins.

Þýska landsliðið hefur nú leikið fjóra leiki síðan að liðið varð heimsmeistari í Ríó 13. júlí síðastliðinn en aðeins náð að vinna einn þeirra. Auk leikjanna í undankeppni EM þá tapaði liðið 2-4 í vináttuleik á móti Argentínu í byrjun september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×