Innlent

Íslendingar geta lært af Bandaríkjamönnum um verndun hvala

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Stjórnandi griðasvæðis hvala í Massachusetts í Bandaríkjunum segir að Íslendingar geti lært af reynslu Bandaríkjamanna um verndun hvala. Íslenskur sérfræðingur telur að hvalveiðar Íslendinga hafi hverfandi áhrif á hvalastofninn á heimsvísu.

Verndun hvala var viðfangsefni ráðstefnu í sýningnarsal Whales of Iceland á Fiskislóð. Ben Haskell, stjórnandi Stellwagen-griðasvæðisins í Massachusetts í Bandaríkjunum, var einn þeirra sem þar tóku til máls. Hann segir að hagsmunir veiða og verndunar geti vel farið saman.

„Þetta tvennt verður að fara saman. Verndun umhverfisins þýðir ekki að ekki sé hægt að hafa þróttmikið efnahagslíf. Reyndar er efnahagsleg afkoma háð þróttmiklum stofni og heilbrigði hvalanna,“ segir hann.

Fleiri þættir en veiðar geti raskað lífríki hvala. Þar telur Haskell að Íslendingar geti lært af reynslu Bandaríkjamanna.

„Hvalir eru ekki bara mikilvægir fyir Ísland, þeir eru mikilvægir fyrir mörg lönd við Atlantshafið. Að vernda þá hér hjálpar öðrum fjarlægum hagkerfum,“ segir hann.

Kvótar hafa ekki verið fullnýttir

Gísli A. Víkingsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að griðasvæði hvala við strendur Íslands, í Faxaflóa, Eyjafirði og Skjálfanda, séu lítil í samanburði við útbreiðslu hvalanna í hafinu. Hann telur veiði þó hafa lítil áhrif á hvalastofninn á heimsvísu enda hafi kvótar verið ákvarðaðir af varfærni.

„Þar ofan á hefur undanfarin ár einungis lítill hluti kvótans verið tekinn. Þannig að það er hægt að segja að það sé alveg útilokað að þær hafi nein áhrif á stofninn,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×