Innlent

Íslendingar endurgreiða Pólverjum 7 milljarða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eftir blaðamannafund skoðaði pólski fjármálaráðherrann sig um á Íslandi.
Eftir blaðamannafund skoðaði pólski fjármálaráðherrann sig um á Íslandi. vísir/gva
„Við erum minnug þess að við höfum sjálf oft fengið aðstoð í fortíðinni,“ sagði Mateusz Szczurek, fjármálaráðherra Póllands, á blaðamannafundi í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gær.

Tilefni fundarins var að Íslendingar hafa ákveðið að endurgreiða fyrir fram lán sem Íslendingar fengu frá Póllandi árið 2009. Lánið var veitt þegar neyð Íslendinga var sem mest eftir bankahrunið og helstu vinaríki, utan Póllands og Færeyja, voru ekki reiðubúin til að veita Íslandi gjaldeyrisforðalán.

Endurgreiðslan nemur 204 milljónum slota, jafnvirði um 7,3 milljarða króna. Lánsloforð Pólverja var upp á 630 milljónir slota og þar af nýtti Ísland um þriðjung. Lánið var á gjalddaga á árunum 2015-2022.

„Það er alltaf verðugt og ánægjulegt að taka þátt í vel heppnuðum verkefnum og við erum ánægð að Íslandi hefur gengið mjög vel að ná bata eftir fjármálakreppuna og þetta vitum við þegar við berum Ísland saman við mörg önnur ríki í Evrópu,“ sagði Szczurek.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði að það væri án alls vafa að stuðningur, örlæti og vinátta Pólverja árið 2009, á tímum mikilla erfiðleika, hefði styrkt tengsl þjóðanna. „Ég vísa í ráðherrann sjálfan þegar ég segi að fyrirframgreiðsla á láninu eru ekki endalok á neinu heldur áfangi á langri vináttu,“ sagði hann.

Bjarni sagðist vonast til þess að í þessari heimsókn myndu Pólverjar finna nýjan vettvang til samstarfs, til dæmis á sviði tölfræði eða í tæknimálum. „Þetta hefur því verið mjög skýrt merki um vilja Pólverja til þess að halda áfram að eiga mikil og góð samskipti eins og við höfum átt í gegnum tíðina,“ sagði Bjarni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×