Viðskipti innlent

Íslendingar eiga 1.229 milljarða í verðbréfum í útlöndum

Heimir Már Pétursson skrifar
visir/getty/gva
Íslendingar áttu verðbréf að verðmæti 1.229 milljarðar króna í útlöndum í lok árs 2013 og jókst verðbréfaeign um 148 milljarða frá árinu á undan, eða um 14%, samkvæmt könnun Seðlabanka Íslands.

Verðbréfaeign íslenskra aðila í útlöndum var mest í Bandaríkjunum, 282 milljarðar og 190 milljarðar í Lúxemborg. Eins og í fyrri könnunum Seðlabankans áttu íslenskir lífeyrissjóðir mest af erlendu verðbréfaeigninni. Eignir þeirra námu 595 milljörðum króna í lok árs 2013 og hafði vaxið um 46,2 milljarða á árinu.

Innlánsstofnanir í slitameðferð áttu næst mest af erlendru verðbréfaeigninni, eða 395 milljarða og höfðu aukið hlut sinn um 38,1 milljarða á milli ára.

Seðlabankinn kannaði einnig verðbréfaeign útlendinga hér á landi og nam hún um 700 milljörðum í árslok 2013. Eign þeirra var að mestu leyti í langtímaskuldaskjölum, eða um 631 milljarðar.

Þeir erlendu aðilar sem mest áttu af verðbréfaeignum á Íslandi voru skráðir í Bandaríkjunum. Þeir áttu um 35% af innlendum verðbréfum í eigu erlendra aðila, en þar á eftir komu aðilar skráðir í Lúxemborg með um 34%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×