Innlent

Íslendingar búnir að fá nóg og flýja ótíðina unnvörpum

Jakob Bjarnar skrifar
Skarphéðinn segir greinilegt að menn vilji bara komast í burtu. Í sólina. Strax.
Skarphéðinn segir greinilegt að menn vilji bara komast í burtu. Í sólina. Strax. visir/GVA/Getty/Stefán
Vísir hefur haft veður af því að Íslendingar séu óvenju ákafir í að kaupa sér sólarlandaferðir um þessar mundir. Þegar blaðamaður hringdi í Úrval Útsýn ætlaði hann aldrei að ná í gegn, allar línur voru uppteknar. Það náðist þó loks í Skarphéðinn Berg, forstjóra og hann sagði að salan gengi alveg gríðarlega vel núna.

„Við erum að sjá menn kaupa sér sólarlandaferð með stysta mögulega fyrirvara. Þeir vilja fara bara strax á morgun. Það er alveg rétt. Það er ekki mikið framboð, en það sem er til það selst vel,“ segir Skarphéðinn.

Íslendingar eru sem sagt búnir að fá sig fullsadda af óveðri sem hefur dunið á þeim í allan vetur. „Já, það er algjörlega greinilegt að menn vilja komast í betra veðurfar. Og það er milt og þægilegt á til dæmis Kanaríeyjaklasanum, allt annað en hérna. Það er engin spurning, það hefur verið mjög mikið að gera hér inni á gólfi í dag, þannig að það er greinilegt að menn eru að hugsa um ferðir í mars og um páskana. Selst eins og heitar lummur.“

Skarphéðinn segir greinilegt að menn vilji bara komast í burtu. Í sólina. Strax. „Það er eftirtektarvert hvað menn eru að kaupa með stuttum fyrirvara. Og það eru þeir sem eru búnir að fá alveg uppí kok.“

Kreppan setti strik í reikninginn hjá ferðaskrifstofum eins og víðar, en Skarphéðinn segir að sala á ferðum til útlanda sé ekki að ná þeim hæðum og var misserin fyrir hrunið 2008. „En, undanfarin tvö til þrjú ár hefur verið jafn vöxtur í þessum bransa milli ára. Þannig að það er greinilegt að fólk er í auknara mæli farið að líta til þess að komast í sólina yfir sumarið. Tímabilið hefur líka verið að lengjast. Fólk er að fara í hefðbundnar sólarlandaferðir sem teygja sig inn í september og jafnvel október.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×