Fótbolti

Íslendingar á Jótlandi að safna í rútuferð á landsleikinn í Tékklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna hér marki í sigrinum á Hollandi.
Íslensku strákarnir fagna hér marki í sigrinum á Hollandi. Vísir/Valli
Íslenska fótboltalandsliðið er að fara spila risastóran leik í næsta mánuði þegar liðið mætir Tékklandi í undankeppni EM en þetta er uppgjör tveggja liða sem hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína í riðlinum.

Áhuginn er mikill á íslenska landsliðinu þessa dagana og hann nær langt út fyrir landsteinanna. Íslendingar í Danmörku ætla að reyna að nýstárlega leið til að komast á leikinn.

Hópur af Íslendingum á Jótlandi er nú að safna fólki í rútuferð á leikinn í Tékklandi sem fer fram í Plzen sunnudaginn 16. nóvember næstkomandi.

Það er ljóst að þeirra bíður mjög löng rútuferð, 900 kílómetrar hvora leið, en það á að halda uppi stemmningunni í rútunni og verður meðal annars seldar léttar veitingar fyrir fyrsta ferðalanga.

Rútan myndi leggja af stað frá Norður-Jótlandi klukkan sex á laugardagsmorgni og stefndi á að vera í Fredericia um klukkan níu. Þar gæti hún meðal annars tekið upp fólk sem kæmi frá Fjóni og Sjálandi. Rútan kæmi síðan til Plzen um kvöldið og þar yrði fundin gisting í eina nótt.

Takist að safna 52 í rútuna mun ferðin kosta 810 krónur danskar á mann sem gera tæplega 17 þúsund krónur íslenskar. Lokafresturinn til að vera með er 1. nóvember en áhugasamir geta láta vita af sér á síðu fésbókarhópsins Íslendingar í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×