Enski boltinn

Íslandsvinurinn er bestur á milli stanganna en De Gea er í veseni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tom Heaton hefur verið flottur í vetur.
Tom Heaton hefur verið flottur í vetur. vísir/getty
Tom Heaton, markvörður Burnley í ensku úrvalsdeildinni og samherji íslenska landsliðsmannsins Jóhanns Bergs Guðmundssonar, er besti markvörður úrvalsdeildarinnar á milli stanganna eins og sagt er ef marka má tölfræði Opta Stats.

Opta raðaði markvöðum deildarinnar á lista eftir því hversu mörg mörk þeir ættu að vera búnir að fá á sig á tímabilinu sem er ný pæling í tölfræði fótboltamarkvarða. Þetta mikla og virta tölfræði fyrirtæki tók fyrir hvert einasta skot á markið í ensku úrvalsdeildinni til þessa og reiknaði út hversu líklegt það var að boltinn myndi enda í netinu.

Þar var pælt í hversu fast var skotið, af hversu löngu færi, úr hversu þröngu færi og fleira en hvert skot fékk einkunn frá núll upp í einn. Frá þessu er greint á vef Sky Sports. Ef skot fékk 0,5 í einkunn þýddi það að helmingslíkur voru á að viðkomandi leikmaður hefði átt að skora með því.

Með þessa tölfræði að vopni reiknaði Opta út hvaða markverðir eru að standa sig best á milli stanganna og verja skot sem annars hefðu átt að fara inn og þannig hreinlega að bjarga marki. Sem er jú vissulega starf markvarðanna.

Íslands- og Messuvinurinn Tom Heaton, sem lærði sitthvað af handboltamarkvörðum, er sá besti miðað við þessa tölfræði en hann er aðeins búinn að fá á sig 19 mörk en ætti að vera búinn að fá á sig 24. Hann hefur varið 64 af 83 skotum á markið og er með 77 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Lee Grant hjá Stoke er í öðru sæti en þessi 33 ára gamli markvörður sem hefur komið svo skemmtilega á óvart eftir að leysa hinn meidda Jack Butland af ætti að vera búinn að fá á sig sextán mörk en er bara búinn að fá á sig fjórtán.

David De Gea, markvörður Manchester United, sem er af mörgum talinn sá besti í deildinni ef ekki sá besti í heiminum, er einn 20 markvarða í úrvalsdeildinni í vetur sem er með neikvæðan árangur í þessum efnum.

Samkvæmt þessari tölfræði Opta ætti spænski landsliðsmarkvörðurinn aðeins að vera búinn að fá sig tæplega fimmtán mörn er búinn að fá á sig sextán. Það þýðir að hann er að missa skot inn sem hann ætti að verja.

David Marshall, markvörður Hull, er sá slakasti á milli stanganna. Hann ætti bara að vera búinn að fá á sig fjórtán mörk en þau eru 22 í heildina.

Allan listann má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×