Sport

Íslandsmeistarinn í borðtennis lætur fötlun ekki stoppa sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kolfinna Bjarnadóttir varð Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna í borðtennis á sunnudaginn. Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Kolfinnu í einliðaleik.

„Þetta eru fleiri fleiri æfingar og maður þarf að læra á andstæðinga sína. Þetta tók sjö ár,“ sagði Kolfinna í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Kolfinna er fötluð frá fæðingu og getur bara notað aðra hendina. Hún viðurkennir að það hafi tekið tíma að læra tæknina í borðtennis.

„Það var erfitt fyrst, að læra að halda á kúlunni og gera þetta allt. En ég náði því öllu. Æfingin skapaði meistarann,“ sagði Kolfinna.

Faðir hennar, Bjarni Þorgeir Bjarnason, hefur þjálfað Kolfinnu frá því hún byrjaði að æfa borðtennis fyrir sjö árum.

„Það tók mig tvö ár að fá að byrja að æfa. Hann ætlaði ekki að leyfa mér það fyrst en það kom. Ég tók nei ekki sem svar,“ sagði Kolfinna sem stefnir á þátttöku á Ólympíumóti fatlaðra í Japan 2020.

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan. Þar er einnig rætt við Bjarna, föður Kolfinnu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×