Viðskipti innlent

Íslandsbanki og Landsbankinn hækka óverðtryggða vexti

ingvar haraldsson skrifar
Landsbankinn og Íslandsbanki hafa hækkað vexti óverðtryggðra lána.
Landsbankinn og Íslandsbanki hafa hækkað vexti óverðtryggðra lána. vísir
Bæði Landsbankinn og Íslandsbanki hafa hækkað vexti óverðtryggðra lána að undanförnu. Landsbankinn reið á vaðið þann 26. maí síðastliðinn og hækkaði vexti óverðtryggðra íbúðalána til þriggja og fimm ára og fasta vexti bílalána til þriggja ára um 0,3 prósentustig.

Þá voru innlánsvextir óverðtryggðra fastvaxtareikninga til tveggja ára hjá Landsbankanum hækkaðir 0,2 prósentustig og vextir á bundnum reikningum til þriggja og fimm ára hækkaðir 0,3 prósentustig.



Segir hækkunina vegna hærri vaxta á skuldabréfamarkaði


Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans segir hækkunin tengjast þeirri þróun sem orðið hafi á markaði undanfarna mánuði.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans segir vaxtahækkun óverðtryggðra lána skýrast af stöðunni á markaði.vísir/daníel
„Við breyttum síðast vöxtunum í desember. Við erum bara að taka lítinn hluta af þeim hækkunum sem orðið hafa á skuldabréfamarkaði í millitíðinni. Síðan taka vextir mið af stýrivöxtum. Seðlabankinn tilkynnti við síðustu vaxtaákvörðun sína að hann myndi hækka vexti í júní ef kjarasamningar yrðu ekki skynsamlegir. Nú kemur það síðan í ljós hvað þeir gera,“ segir Kristján.

Kristján bætir við að eftir sé að samþykkja þá kjarasamninga sem skrifað var undir í síðustu viku auk þess að stórir hópar launamanna eigi enn eftir að semja um kaup og kjör.  „Það er ákveðin áhætta,“ segir hann.

„Svo er náttúrulega fram undan afnám fjármagnshafta. Allt mun þetta hafa þau áhrif að ýta undir verðbólgu,“ segir Kristján og bendir sem dæmi á verðbólguspá Íslandsbanka sem kynnt var í síðustu viku þar sem því var spáð að verðbólga á þessu ári yrði 1,9 prósent en svo hækka í 3,6 prósent árið 2016 og  í 3,7 prósent árið 2017.

Sjá einnig: Íslandsbanki spáir hraðri hækkun stýrivaxta

„Það hefur verið mikill þrýstingur upp á við á vexti á fjármagnsmarkaði. Þetta er nú svona viðurkenning á þeirri stöðu,“ segir Kristján.

Íslandsbanki hækkar vexti útlána en ekki innlána

Íslandsbanka hækkaði vexti  óverðtryggðra húsnæðislána með fasta vexti í dag, 1. júní samkvæmt upplýsingum frá bankanum. Lán með föstum vöxtum til þriggja ára hækka um 0,30 prósentustig en lán með föstum vöxtum til fimm ára hækka um 0,40 prósentustig. Vextir innlána hjá bankanum hafa ekki verið hækkaðir líkt og gert var hjá Landsbankanum.

Ástæða hækkunarinnar hjá Íslandsbanka er sögð vera umtalsverð hækkun á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra fastra vaxta á markaði sem leiði af sér hærri fjármagnskostnað fyrir bankann.

Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, segir enga ákvörðun hafa verið tekna um vaxtahækkanir.mynd/arion banki
Arion banki ekki tekið ákvörðun um vaxtahækkanir



Arion banki hyggst ekki að svo stöddu elta hina bankana í vaxtahækkunum. „Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um vaxtahækkun hjá okkur,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, en bætir við að áfram verði fylgst vel með þróun á markaði. Haraldur segir að síðast hafi orðið breyting á  óverðtryggðum vöxtum hjá bankanum í desember þegar vextirnir voru lækkaðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×