Viðskipti innlent

Íslandsbanki hagnast vel vegna Borgunar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Birna Einarsdóttir er bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir er bankastjóri Íslandsbanka. Vísir
Íslandsbanki hagnaðist um 13 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 10,8 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Í tilkynningu frá bankanum segir að afkoman nú skýrist af sterkum grunntekjum og einskiptishagnaðar vegna sölu Borgunar á hlutabréfum í Visa Europe.

Eiginfjárhlutfall bankans var 28,9 prósent í lok júní og eiginfjárhlutfall A (CET 1) var 27,1 prósent. Þá var lausafjárstaða umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið en í lok júní var lausafjárþekjuhlutfallið 173 prósent og fjármögnunarhlutfallið 117 prósent. Heildareignir bankans voru svo 1030 milljarðar í lok tímabilsins.

„Afkoma Íslandsbanka á fyrri árshelmingi var góð og staða bankans sterk. Hagnaður tímabilsins var um 13 milljarðar og arðsemi eiginfjár 12,9%. Aukning hagnaðar skýrist að miklu leyti af tekjum frá dótturfélagi bankans, Borgun. Útlánavöxtur nemur 5% á fyrstu sex mánuðum ársins og hafa lánveitingar verið til fjölbreyttra atvinnugreina,“ er haft eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra í tilkynningu bankans.

Íslandsbanki er að fullu í eigu ríkissjóðs. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×