Viðskipti innlent

Íslandsbanki hagnast um 6,4 milljarða á öðrum ársfjórðungi

Haraldur Guðmundsson skrifar
Hagnaður bankans á fyrri helmingi ársins nam 14,7 milljörðum króna.
Hagnaður bankans á fyrri helmingi ársins nam 14,7 milljörðum króna. Vísir/Vilhelm
Íslandsbanki hagnaðist um 6,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 6,6 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Hagnaður bankans á fyrri helmingi ársins nam því 14,7 milljörðum miðað við 11,2 milljarða á sama tíma 2013.

Eigið fé bankans hækkaði um 14 prósent á milli ára úr 156 milljörðum í 178 milljarða. Hreinar vaxtatekjur voru 6,9 milljarðar á öðrum fjórðungi 2014 og þóknanatekjur voru 2,8 milljarðar. Lán til viðskiptavina námu 604 milljörðum sem er sjö prósenta hækkun á milli fjórðunga.

Í tilkynningu bankans um uppgjörið segir að um 36.000 einstaklingar og um 4.200 fyrirtæki hafi frá stofnun hans fengið afskriftir, eftirgjafir eða leiðréttingar á skuldum sem nemi 561 milljarði króna.

Birna Einarsdóttir
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir í tilkynningunni að bankinn hafi skilað arðsemi eigin fjár upp á 14,5 prósent á öðrum ársfjórðungi. 

„Síðustu tvo fjórðunga höfum við séð góðan vöxt í útlánum og hafa þau aukist um 9% frá áramótum. Við sjáum einnig góðan vöxt í þóknanatekjum og dreifist vöxturinn vel á milli tekjusviða bankans. Kostnaðarhagræðing gengur vel og lækkar stjórnunarkostnaður um 13,4% á milli ára," segir Birna.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×