Enski boltinn

Íslandsbaninn sem kærður var fyrir nauðgun vill komast í landslið Wales

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chad Evans hefur skorað eitt landsliðsmark á ferlinum, í 1-0 sigri á Íslandi árið 2008.
Chad Evans hefur skorað eitt landsliðsmark á ferlinum, í 1-0 sigri á Íslandi árið 2008. Vísir/Getty
Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að Ched Evans geti byrjað að spila sem atvinnumaður í knattspyrnu á nýjan leik eftir að hann var sýknaður af nauðgunarkæru á dögunum.

Evans var sakfelldur og dæmdur í fimm ára fangelsi árið 2012 fyrir að nauðga nítján ára konu. En sá dómur var felldur úr gildi í apríl á þessu ári og réttað í málinu upp á nýtt.

Niðurstaða kom í vikunni og var Evans þá sýknaður. Evans er á mála hjá Chesterfield sem spilar í ensku C-deildinni en hann fékk samning hjá liðinu í sumar eftir að hann losnaði úr fangelsi fyrir tveimur árum síðan.

Evans er 27 ára framherji og á að baki 13 landsleiki með Wales. Hann skoraði eitt mark í þeim leikjum - sigurmarkið í 1-0 sigri á Íslandi í vináttulandsleik á Laugardalsvelli þann 28. maí 2008.

Evans byrjaði tímabilið af krafti með Chesterfield og skoraði fjögur mörk í fyrstu þremur leikjum sínum. Hann spilaði alls sjö leiki en steig svo til hliðar á meðan réttað var í máli hans á nýjan leik.

„Kannski í framtíðinni kemst ég aftur í landsliðið. En það fer eftir því hvernig ég stend mig og hversu mikið ég næ að skora,“ sagði Evans spurður um landslið Wales en það sló í gegn á EM í sumar.

„Ég vil bara láta verkin tala og sjá hvað það færir mig langt.“


Tengdar fréttir

Nauðgunardómurinn yfir Evans ógiltur

Þó svo Ched Evans sé búinn að sitja í fangelsi vegna nauðgunar þá er áfrýjunardómstóll búinn að ógilda dóminn og það verður réttað yfir Evans á ný.

Evans sýknaður í nauðgunarmálinu

Knattspyrnumaðurinn Ched Evans var í dag sýknaður í nauðgunarmáli. Hann var sakaður um að hafa nauðgað 19 ára stúlku á hótelherbergi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×