Innlent

Ísland valið fegursti tökustaðurinn: „Svona verðlaun eru okkur mikils virði“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Einar Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu tók við verðlaununum.
Einar Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu tók við verðlaununum. Íslandsstofa
Ísland var valið fegursti tökustaðurinn á alþjóðlegu verðlaunahátíðinni International Film Business Awards í byrjun desember. Verðlaunaafhendingin fór fram í tengslum við Indywood Film Carnival, sem er ein stærsta sölu- og kynningarhátíð kvikmyndageirans. Hátíðin er haldin á Indlandi. Einar Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu tók við verðlaununum.

Einar leiðir verkefnið Film in Iceland sem kynnir Ísland sem tökustað erlendis.

„Ég held að fólk geri sér kannski ekki grein fyrir því hvað kvikmyndaiðnaðurinn í Indlandi er stór. Þar eru árlega gerðar meira en 1500 kvikmyndir og seldir fleiri miðar en nokkurs staðar í heiminum.“

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsstofu hafa sex kvikmyndir frá Indlandi verið teknar upp hér á landi á undanförnum árum. Sú stærsta er kvikmyndin Dilwale, með indversku stórstjörnunni Shah Rukh Khan sem tekin var hér upp árið 2015. 

Myndband við lagið Gerua úr kvikmyndinni Dilwale hefur verið skoðað í kringum 200 milljón sinnum á Youtube. Tökurnar fóru fram á Suðurlandinu og er Ísland þar í aðalhlutverki. Framleiðslukostnaður þess var um ein milljón dollara.

Vaxandi áhugi

Einar segir því eftir miklu að slæðast fyrir íslensk framleiðslufyrirtæki á Indlandi.

„Svona verðlaun eru okkur mikils virði því þau vekja athygli. Það skemmir heldur ekki fyrir að fá hingað stjörnu á borð við Shah Rukh Khan.“ Khan hefur fengið viðurnefnið Konungur Bollywood og er talið að hann sé einn ríkasti leikari í heimi.

„Alls eru rúmlega 40 milljónir manns að fylgjast með honum á samfélagsmiðlunum Instagram og Twitter, sem er umtalsvert meira en Íslandsvinir á borð við Tom Cruise og Ben Stiller geta státað, en hvor um sig er með rúmlega sjö milljónir fylgjenda,“ segir í tilkynningu frá Íslandsstofu.

Íslandsstofa hefur staðið fyrir kynningu á Íslandi sem tökustað undanfarin ár í samstarfi við Sendiráð Íslands. Einar segir að áhugi á Íslandi sem tökustað sé vaxandi á Indlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×