Viðskipti innlent

Ísland stendur sig verst af EES-ríkjunum

Bjarki Ármannsson skrifar
Evrópumál Íslands hafa verið í brennidepli undanfarna daga.
Evrópumál Íslands hafa verið í brennidepli undanfarna daga. Vísir/Valli
Frammistaða Íslands við að innleiða tilskipanir og reglugerðir Evrópska efnahagssvæðisins, EES, á réttum tíma er langlökust allra ríkja á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA.

Innleiðingarhalli Íslands í nóvember 2013 var 3,2 prósent. Talan táknar hlutfall tilskipana sem ekki voru innan tímamarka, en 37 tilskipanir voru ekki að fullu innleiddar á Íslandi á réttum tíma. Til samanburðar má nefna að innleiðingarhalli innan ríkja ESB var á sama tíma að meðaltali 0,7 prósent og ekkert ríki innan sambandsins fór yfir 1,5 prósent.

„Þetta lítur hvorki vel út fyrir Ísland né EFTA-ríkin í heild,“ segir Ólafur Einarsson, framkvæmdastjóri innri markaðar ESA. Hann bendir á að Noregur er næstneðstur á eftir Íslandi í frammistöðumatinu, með innleiðingarhalla upp á 1,8 prósent.

„Þetta er ekki gott fyrir trúverðugleika EFTA-ríkjanna sem samstarfsaðila sambandsins.“

Síðasta frammistöðumat ESA var gert í maí 2013 og var innleiðingarhalli Íslands þá 2,3 prósent, sem var þá sá mesti sem verið hafði um árabil. Reglugerðum sem ekki eru innleiddar innan tímamarka hefur stórfjölgað og tíminn sem Ísland fer fram úr tímamörkum er lengstur. Hann er nú 13,1 mánuður að meðaltali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×