Innlent

Ísland og Bandaríkin undirrita FACTA samkomulag

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bjarni Benediktsson og Robert Barber takast í hendur að undirritun lokinni.
Bjarni Benediktsson og Robert Barber takast í hendur að undirritun lokinni. mynd/vefur fjármálaráðuneytisins
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Rober C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, undirrituðu í dag, fyrir hönd ríkja sinna, samning um regluleg upplýsingaskipti vegna fjármálastofnana í samræmi við FACTA lögin bandarísku frá 2010.

FATCA er stytting á enska heitinu Foreign Accounts Tax Compliance Act og varðar bandarísk lög um upplýsingaskyldu erlendra fjármálastofnana vegna reikninga í eigu bandarískra aðila.

Samkvæmt lögunum ber öllum erlendum fjármálastofnunum að senda árlega upplýsingar um tekjur og eignir bandarískra skattgreiðenda beint til bandarískra skattyfirvalda. Fallist þau ekki á að senda slíkar upplýsingar eiga þau á hættu að lagður verði 30% afdráttarskattur á tilteknar greiðslur til þeirra sem upprunnar eru í Bandaríkjunum.

Í samningnum felst að upplýsingaskiptin fari fram á milli skattyfirvalda í Bandaríkjunum og á Íslandi og að bæði ríkin senda nauðsynlegar upplýsingar um skattgreiðendur, bæði einstaklinga og fyrirtæki.

„Það er ánægjulegt að samningurinn sé í höfn, en tilkoma hans léttir byrði af fjármálastofnunum með því að samskipti vegna þessara mála fari í gegnum skattyfirvöld. Það er stefna íslenskra stjórnvalda að auka regluleg upplýsingaskipti í skattamálum á alþjóðavísu og þessi samningur er skref í þá átt,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra við undirritun samningsins.

„Bandaríkin fagna skuldbindingu Íslands um að efla tvíhliða samstarf okkar til að bæta alþjóðleg skattaskil. Undirritunin í dag markar mikilvægt skref fram á við í sameiginlegu átaki í baráttunni gegn skattaskjólum sem gagnast báðum löndum,” segir Robert Barber um áfangann.

Hægt er að lesa samninginn í heild sinni með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×