Fótbolti

Ísland ofar en Holland á nýjasta FIFA-listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í íslenska landsliðinu enda árið á góðum stað á FIFA-listanum.
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í íslenska landsliðinu enda árið á góðum stað á FIFA-listanum. Vísir/EPA
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta verður áfram í 21. sæti á Styrkleikaleika FIFA þegar nýr listi verður gefinn út 24. nóvember næstkomandi.

Íslenska liðið tapaði fyrir Króatíu 2-0 í undankeppni HM og vann Möltu 2-0 í vináttuleik í þeim tveimur leikjum sem liðið spilaði frá því að síðasti FIFA-listinn var gefinn út.

Íslenska fótboltalandsliðið hafði hækkað sig um sex sæti á síðasta lista og náð sinni bestu stöðu á styrkleikalistanum frá upphafi. Nú er ljóst að íslenska liðið heldur þessu metsæti sínu.

Spænski tölfræðingurinn Alexis Martín-Tamayo hefur reiknað út stöðu 60 efstu þjóðanna á FIFA-listanum.

Tapleikurinn á móti Króötum dregur íslenska liðið ekki niður á listanum en Króatar hækka sig um tvö sæti og sitja nú í fjórtánda sæti listans.

Íslenska liðið er einu sæti ofar en Hollendingar á nýja listanum en Hollendingar falla niður um tvö sæti eftir að hafa verið einu sæti á undan Íslendingum á októberlistanum.

Argentína og Brasilía verða í tveimur efstu sætum listans, Argentína heldur toppsætinu en Brasilía komst upp fyrir Þýskaland. Síle hoppar líka upp fyrir Belgíu og Kólumbíu og upp í í fjórða sæti listans.

Ísland er áfram efsta Norðurlandaþjóðin á listanum en íslenska liðið er tuttugu sætum á undan Svíum (41. sæti) og 25 sætum á undan Dönum (46. sæti). Danir hækka sig um fjögur sæti en Svíar falla niður um tvö sæti.

Ísland hefur aldrei fyrr náð því að vera tuttugu sætum ofar en næsta Norðurlandaþjóð en það munaði „bara“ 18 sætum á síðasta lista.

Það má sjá topp 60 listann frá Alexis Martín-Tamayo hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×