Viðskipti innlent

Ísland nánast orðið seðlalaust samfélag

Viðar Þorkelsson.
Viðar Þorkelsson.
„Kostirnir við það að nota greiðslukort frekar en seðla eru til að mynda aukið gegnsæi í viðskiptum, minna er skotið undan skatti, aukin þægindi sem felast í því að þurfa ekki að hafa með sér reiðufé, minni hætta á að glata verðmætum og minni líkur á innbrotum í verslanir,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors.

Yfir 70% af daglegum útgjöldum íslenskra heimila eru greidd með greiðslukortum samanborið við 25% að meðaltali annars staðar í Evrópu.

Viðar segir að íslenska greiðslumiðlunarkerfið hafi aðra merka sérstöðu. Kerfið hafi byggst á íslenskum hugbúnaðarlausnum frá upphafi og aðkomu kortafyrirtækja, banka og kaupmanna.

„Kerfið nýtur trausts og góðrar samvinnu allra hagsmunaaðila, ekki síst neytenda og fyrirtækja,“ segir hann. Þessi þróun á ekki bara við um viðskipti við búðarborð. Netverslun verður sífellt algengari og greiðslukortanotkun meiri fyrir vikið. Viðar segir þessar staðreyndir og fleiri sýna hversu sterkum rótum innlenda greiðslumiðlunarkerfið hefur skotið meðal íslensku þjóðarinnar.

Viðar gengur svo langt að segja Ísland í fararbroddi í þessum efnum. Þannig hafi íslenska greiðslumiðlunarkerfið vakið athygli erlendis og sé samkeppnishæft við kerfi miklu stærri markaða í nágrannalöndum. Kerfið sé eitt það hagkvæmasta sinnar tegundar í Evrópu, bæði fyrir söluaðila og neytendur.

„Kerfið hefur þá sérstöðu að tímabilaskiptingin og vaxtalaus greiðslufrestur hindrar óhóflega skuldsetningu neytenda og þá vaxtabyrði sem af því leiðir og telst víða neikvæður fylgifiskur kortanotkunar,“ bætir hann við.

Dagleg útgjöld Íslendinga fara flest í gegnum greiðslukort. Fréttablaðið/Pjetur
Að undanförnu hefur verið unnið að nýju uppgjörskerfi Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn verður nýr miðlægur uppgjörsaðili í kortaviðskiptum á þessu ári. Þetta opnar markaðinn og auðveldar nýjum aðilum að koma inn á hann. Viðar segir þetta hlut í þeirri þróun sem hafi orðið á Íslandi síðustu ár, að markaðurinn sé opnari og samkeppni heilbrigð. Þannig sé neytendum boðin góð þjónusta á lágu verði.

Viðar segist vilja setja á fót samstarfsvettvang stjórnvalda og aðila kortamarkaðarins til að fara yfir mögulega framþróun og umbætur á samkeppnisumhverfinu.

Hann óskar jafnframt eftir aðkomu og leiðbeinandi innleggi frá Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu og fleirum, en Valitor var nú á dögunum gert að greiða 500 milljóna króna sekt fyrir alvarleg brot á samkeppnislögum. Valitor hafnaði þessum ásökunum Samkeppniseftirlitsins á þeim tíma. 

olof@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×