Lífið

Ísland í dag: Fá meira úr sambandinu í opnu hjónabandi

Margrét Erla Maack skrifar
Þau Erla Margrét Gunnarsdóttir skipulagsfræðingur og Logi Bjarnason listamaður eru búin að vera saman í ellefu ár. Þau ákváðu í vor að opna sambandið. Þau segja að opin sambönd séu mikið tabú í samfélaginu og að umræðan sé stundum á þá leið að fólk sé að lengja sambandsslit með þessu móti. Erla segir að þetta geri sambandinu gott, hún sé mun sjálfsöruggari eftir að þetta samkomulag komst á.

„Þetta kom í kjölfar umræðu um að vera ekki steypt í einhvern kassa sem við búum til fyrir okkur,“ segir Logi. Þau segjast ekki eyða minni tíma hvort með öðru eða stunda minna kynlíf frá því að þau opnuðu sambandið.

„Við stundum einmitt mun meira kynlíf,“ segir Erla og hlær.

Þau ákváðu ekki að opna sambandið til að bjarga því, heldur til að gera gott samband betra. Logi segir að karlar séu forvitnir um fyrirkomulagið, en að konur séu minna til í að stofna til sambands við mann sem er í opnu hjónabandi.

„Þetta er lélegasti díll sem ég hef gert á ævi minni,“ segir Logi og vísar til þess að Erla á mun auðveldara með að komast á séns en hann. Hann segist þó fá meira úr sambandinu frá Erlu eftir opnun sambandsins.

Ítarlegt viðtal við hjónin var sýnt í Íslandi í dag í kvöld. Sjá má viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×