Innlent

Ísland í dag: Rassinn í aðalhlutverki í Mottumars

Ásgeir Erlendsson skrifar
Mottumars er haldinn í sjöunda skipti í ár og eins og alltaf, snýst hann um karla og krabbamein. Það er rassinn sem er í aðalhlutverki í ár og mönnum bent á að það skipti öllu máli að huga að honum.

Ásamt blöðruhálskrabbameini er lögð ríkuleg áhersla á ristilkrabbamein en gítarleikarinn Birgir Hrafnsson veit mætavel að það skiptir miklu máli að vera vakandi fyrir fyrstu einkennum þess.

„Í kringum fimmtugt verð ég var við blóð í hægðum,“ segir Birgir. „Ég tengdi það svona fyrst við það að mér fannst ég vera með svona gyllinæð. Þannig ég var ekkert að gera mál úr því. En svo var þetta alltaf að pirra mig annað slagið þannig að ég ákvað að taka upp símann og hringja í meltingarsérfræðing.“

Birgir fór í ristilspeglun, þar sem fundust nokkrir separ. Þeir voru fljótt teknir í burtu en hvernig hefði farið fyrir Birgi ef hann hefði ekki farið í skoðun?

„Það er talað um að separnir séu hugsanlega forstig að illkynja krabbameini. Þannig að ég væri kannski kominn undir græna torfu í dag ef ég hefði ekki farið í þessa skoðun og þessir separ fjarlægðir.“

Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins, segir í Íslandi í Dag að þessi tegund krabbameins geti verið einkennalaus lengi. Því sé mikilvægt að nota þær leiðir sem eru til til að athuga hvort maður sé með þetta krabbamein: láta taka saursýni eða ræða við lækni.

„Ég hafði samband við nokkra félaga mína í kjölfarið á þessu sem höfðu ekki farið í svona skoðun og sagði þeim að drífa sig í þetta,“ segir Birgir. „Gaf þeim meira að segja upp nafnið og símanúmerið á lækninum og fylgdi þessu eftir. Þetta voru kannski tíu félagar og ef ég man rétt, fundust separ hjá tveimur eða þremur.“

Það er svo landslið íslenskra leikara sem leikur í mjög skemmtilegri auglýsingu fyrir Mottumars þetta árið og var stemningin á tökustað oft og tíðum skrautleg. Svipmyndir af tökustað má sjá í innslaginu hér fyrir ofan en auglýsingin í heild sinni er í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×