Innlent

Ísland í dag: Konur mun stærri hópur gerenda en fólk heldur

Sindri Sindrason skrifar
„Erfiðast er þegar mæður trúa ekki börnum sínum og velja að trúa til að mynda stjúpföðurnum,“ segir Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, en inn á hennar borð rata yfir 330 mál á ári hverju og fer fjölgandi.

Þá segir hún konur gerendur í mun fleiri kynferðisbrotamálum en fólk heldur. Ísland í dag hitti Ólöfu og kynntist starfsemi Barnahúss.

Barnahús sinnur málefnum barna sem grunur liggur á um að hafi verið beitt kynferðisofbeldi eða -áreitni. Ólöf Ásta hefur unnið við þennan málaflokk undanfarin sextán ár og gengt forstöðu í Barnahúsi frá árinu 2007. Hingað koma börn á aldrinum þriggja til átján ára.

„Markmiðið með húsinu er náttúrulega að öll börnin fái þjónustu undir eina og sama þakinu og að ólíkir aðilar komi og hitti börnin í Barnahúsi, en að barnið þurfi ekki að fara á marga staði og hitta ókunnuga,“ segir Ólöf.

Sjötíu prósent skjólstæðinga Barnahúss eru stúlkur og unglingar langstærsti hópurinn. Ólöf segir þó að mun fleiri drengir verði fyrir kynferðisofbeldi en tölur gefi til kynna og að þeir geti jafnvel verið jafnmargir og stúlkurnar.

„Þeir eiga náttúrulega erfiðara með að segja frá,“ segir Ólöf. „Ég held að það sé ákveðið vandamál, jafnvel þó að við höfum reynt að tala um það við fagfólk að hlusta eftir þeirra tjáningu líka. Drengir sýna kannski frekar reiði og aggresífa hegðun en stúlkur.“

Hún segir jafnframt að ef karlmaður stígur fram og greini frá því að hann hafi verið misnotaður, séu skýr merki um að fleiri stígi þá fram. Sérstaklega ef um þekktan aðila er að ræða.

„Það hefur áhrif,“ segir hún. „Ég tel það mjög mikilvægt að reyna að ná í þennan hóp drengja því þeir sýna sömu afleiðingarnar og stúlkur, og jafnvel verri.“

Sjá má innslagið um Barnahús í Íslandi í dag í heild sinni í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Allar skýrslutökur af börnum í Barnahúsi

Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, fagnar því að með frumvarpi til laga um breytingu á meðferð sakamála, sem er á þingmálaskrá dómsmálaráðherra, sé lagt til að allar skýrslutökur af börnum fari fram í Barnahúsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×