Innlent

Ísland í 27. sæti í samkeppnishæfni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ísland hækkar um tvö sæti í samkeppnishæfni þjóða.
Ísland hækkar um tvö sæti í samkeppnishæfni þjóða. vísir/daníel
Ísland skipar 27.sæti á lista yfir samkeppnishæfni þjóða samkvæmt nýútkominni skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) fyrir árin 2016-2017. Ísland færist upp um tvö sæti frá árinu á undan, en alls tóku 138 þjóðir þátt í rannsókn ráðsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem er samstarfsaðili Alþjóðaefnahagsráðsins á Íslandi og sá um framkvæmd könnunarinnar hér á landi.

Sviss er í fyrsta sæti listans áttunda árið í röð. Þar á eftir koma Singapore og Bandaríkin en þar er afar mjótt á munum. Holland og Þýskaland skipa fjórða og fimmta sætið og hafa þau skipt um sæti síðan í fyrra. Svíþjóð er í sjötta sæti og Bretland í því sjöunda, en einkunn Bretlands var reiknuð áður en landsmenn tóku ákvörðun um að ganga út úr Evrópusambandinu. Indland er það land sem risið hefur hraðast og hækkar um 16. sæti síðan í fyrra, og er nú í 39. sæti.

Skýrsluhöfundar átelja það sem þeir kalla lokun hagkerfa heimsins og telja þróun í þá átt undanfarin 10 ár standa í vegi fyrir heilbrigðri samkeppni og draga út vexti í efnahagsmálum.

Vísitala ráðsins er virtur mælikvarði á efnahagslíf þjóða víða um heim. Vísitalan er víðtæk og endurspeglar þá þætti sem segja til um framleiðni þjóða og vaxtamöguleika þeirra. Í tilkynningunni segir að rannsóknin byggi á opinberum upplýsingum og könnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×