Innlent

Ísland í 13. sæti á nýjum lista yfir spillingu í heiminum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ísland er spilltasta ríki Norðurlanda samkvæmt nýjum lista Transparency International.
Ísland er spilltasta ríki Norðurlanda samkvæmt nýjum lista Transparency International. vísir/egill
Ísland er í 13. sæti á nýjum lista Transparency International um spillingu í ríkjum heims. Eftir því sem ríki er neðar á listanum er meiri spilling þar og er Ísland því í hópi þeirra ríkja þar sem er hvað minnst spilling en er þó spilltasta ríki Norðurlanda.

Danmörk er í öðru sæti listans á eftir Nýja-Sjálandi þar sem minnst spilling er, Finnland kemur svo í þriðja sæti og Noregur í fjórða sæti. Svíþjóð er svo í sjötta sæti listans en önnur lönd sem eru fyrir ofan Ísland eru Sviss, Singapúr, Kanada, Lúxemborg, Holland, Bretland, Þýskaland, Ástralía og Hong Kong. Bandaríkin eru svo aðeins fyrir neðan Ísland í 16. sæti.

Spilltasta ríki heims er Sómalía samkvæmt listanum. Í sætinu fyrir ofan er Suður-Súdan, þá kemur Sýrland, svo Afganistan og Jemen.  

Að því er fram kemur á vef Transparency International hafa nokkur ríki fært sig töluvert upp á listanum frá árinu 2012, þar á meðal Fílabeinsströndin, Senegal og Bretland á meðan önnur hafa farið niður listann, þar á meðal Sýrland, Jemen og Ástralía.

Þegar rýnt er nánar í niðurstöðurnar kemur í ljós að mest spillingi ríkir í löndum þar sem fjölmiðlar og óháð félagasamtök njóta hvað minnstrar verndar. Þannig er að minnsta kosti einn blaðamaður drepinn á viku í ríki sem er mjög spillt.

Listann má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×