Viðskipti innlent

Ísland hundraðasta vindorkuþjóðin

Jóhannes Stefánsson skrifar
Vindmyllur ofan Búrfells.
Vindmyllur ofan Búrfells. Mynd/ Landsvirkjun

Alþjóðlegu vindorkusamtökin (World Wind Energy Association) hefur í nýútgefinni skýrslu sinni fyrir árið 2012 tilkynnt að Ísland sé hundraðasta landið í heiminum til að virkja vind til almennrar raforkuvinnslu. Í skýrslunni segir einnig að uppsett vindafl hafi aukist um 19% frá fyrra ári og er nú 282 þúsund megavött um gjörvallan heim.

Þá er í skýrslunni fjallað um sérstöðu Íslands, þar sem öll innlend raforkuvinnsla byggir á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir jafnframt að félagið vinni 73% allrar raforku í landinu og sé eitt af tíu stærstu orkufyrirtækjum Evrópu á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að vindorka geti mögulega orðið þriðja stoðin í orkukerfi Landsvirkjunar til framtíðar og áhugavert verði að sjá hvernig hún muni nýtast með öðrum orkugjöfum fyrirtækisins.

Vindorka í sókn á heimsvísu

Virkjun vindorku á heimsvísu hefur aukist mikið á undanförnum árum.  Í árslok 2012 komu 3% af allri raforku heimsins frá vindmyllum og Alþjóðlegu vindorkusamtökin spá mikilli aukningu á næstu misserum.  Þannig búast samtökin við því að uppsett afl frá vindmyllum muni tvöfaldast fyrir lok árs 2016 og innan átta ára gæti uppsett vindafl verið um ein milljón MW.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×