Handbolti

Ísland gæti lent með Gumma og Degi í riðli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur og Dagur mættust með lið sín á HM í Katar.
Guðmundur og Dagur mættust með lið sín á HM í Katar. Vísir/Eva Björk
Á föstudaginn kemur í ljós hvaða lið verða með Íslandi í riðli á EM í Póllandi sem fer fram í janúar á næsta ári.

Undankeppninni lauk í gær en Ísland tryggði sér sigur í sínum riðli með glæsilegum tólf marka sigri á Svartfjallalandi í Laugardalshöll, 34-22.

Svartfellingar komust engu að síður áfram sem það lið sem bestum árangri náði í þriðja sæti riðlanna. Munar mestu um að Svartfellingar unnu Íslendinga á heimavelli.

Ísland er í öðrum styrkleikaflokki ásamt Póllandi, Svíþjóð og Ungverjalandi og getur því ekki dregist í riðil með þessum löndum.

Það er ljóst að Pólland leikur í A-riðli sem fer fram í Kraká. Ísland verður því í einum hinna riðlanna.

Styrkleikaflokkana má sjá hér fyrir neðan en það er ljóst að Ísland getur dregist í riðil með bæði Danmörku og Þýskalandi en bæði lið eru sem kunnugt er þjálfuð af Íslendingum - Guðmundi Guðmundssyni og Degi Sigurðssyni.

1. styrkleikaflokkur: Frakkland, Danmörk, Spánn og Króatía.

2. styrkleikaflokkur: Ísland, Pólland, Svíþjóð og Ungverjaland.

3. styrkleikaflokkur: Rússland, Makedónía, Þýskaland, Hvíta-Rússland.

4. styrkleikaflokkur: Serbía, Noregur, Slóvenía, Svartfjallaland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×