Viðskipti innlent

Ísland fellur um fjögur sæti í samkeppnishæfni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Miðbær Reykjavíkur á sjaldséðum góðviðrisdegi í maí.
Miðbær Reykjavíkur á sjaldséðum góðviðrisdegi í maí. Vísir/Arnar
Ísland fellur um fjögur sæti á lista IMD viðskiptaháskólans milli ára hvað við kemur samkeppnishæfni ríkja. Ísland situr nú í 24. sæti eða sama sæti og árið 2015. Niðurstaðan er nokkur vonbrigði að mati Viðskiptaráðs Íslands þar sem Ísland hefur skriðið upp listann síðustu fjögur ár.

Í efnahagslegri frammistöðu fellur Ísland um 18 sæti og niður í það 57. sæti að þessu sinni. Minni hagvöxtur árið 2017 heldur en 2016 ásamt sterku gengi krónunnar skýrir þá þróun að miklu leyti að mati Viðskiptaráðs.

„Skilvirkni hins opinbera minnkar einnig milli ára og fellur Ísland þar úr 8. sæti niður í það sextánda. Þar hefur gengi gjaldmiðilsins einnig áhrif, auk meiri hættu á pólitískum óstöðugleika og að áhrif stöðugleikaframlaga á opinber fjármál nýtur ekki eins sterkt við. Skilvirkni atvinnulífsins batnar lítillega milli ára og situr Ísland nú í 22. sæti en innviðir standa í stað í 17. sæti,“ segir í tilkynningu Viðskiptaráðs.

Útkoma annarra ríkja

Bandaríkin njóta góðs af kröftugum hagvexti og taka stökkið upp í efsta sætið á kostnað Hong Kong sem er í 2. sæti. Sviss sem var í 2. sæti í fyrra fellur aftur á móti niður í það fimmta og Holland hækkar um eitt sæti upp í það fjórða.

Ísland stendur Norðurlöndunum enn nokkuð að baki og eykst bilið milli ára. Danmörk er efst af Norðurlöndunum og hækkar um eitt sæti (6. sæti), Noregur er næst og hækkar um þrjú sæti (8. sæti) en Svíþjóð stendur í stað (9. sæti). Finnland fellur um eitt sæti niður í 16. Sæti og sem fyrr segir er Ísland neðst af Norðurlöndunum í 24. sæti.

Í tilefni af úttekt IMD á samkeppnishæfni efnir Viðskiptaráð til blaðamannafundar klukkan 11:00, fimmtudaginn 24. maí í Húsi atvinnulífsins (Kvika, fundarsalur á 1. hæð) þar sem niðurstöðurnar verða kynntar nánar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×