Skoðun

Ísland er ómótaður leir

Hörður Guðmundsson skrifar
Ísland er nánast eins og ómótaður leir og með hverjum deginum færum við okkur nær því að verða sannkölluð draumaeyja. Hér eru tækifæri á hverju strái og margt hægt að gera til þess að tryggja ein bestu lífsskilyrði heims. En þótt þeir svartsýnu láti nú oft hátt í sér heyra þá eru þeir bjartsýnu önnum kafnir við það að greiða veginn að bjartari og betri framtíð.

Á þessu ári hefur margt og mikið gerst og þótt ýmislegt hefði betur mátt fara erum við óneitanlega á góðri leið með að endurheimta stöðu okkar meðal fremstu þjóða heims. Þökk sé aðgerðum stjórnvalda hefur hagur heimilanna í landinu batnað verulega, kaupmáttur aukist, atvinnuleysi lækkað og sé miðað við landsframleiðslu hafa skuldir heimilanna ekki verið lægri síðan 2004. Ríkisstjórnin á talsvert hrós skilið fyrir þessa vinnu og þá sérstaklega fjármálaráðuneytið fyrir að taka skref í átt að því að frelsa þjóðina undan höftunum.

En þótt við séum nánast búin að rétta skútuna á réttan kjöl, er í raun of snemmt að fagna. Við verðum að búa okkur undir allskyns veður og vinda næstu ár og setja okkur langtímamarkmið til þess að tryggja það að við séum að sigla í rétta átt. Nú þurfa verkin einfaldlega að tala!

Íslendingar þurfa að hætta að bera sig saman við Norðurlöndin og þurfa að horfast í augu við þá staðreynd að við séum smáþjóð. Við erum býsna háð verslun og viðskiptum og ættum því að móta kerfið okkar til þess að tryggja einstök og örugg skilyrði fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki. Skattar í landinu ættu því almennt að vera fáir, lágir, flatir og skiljanlegir en ættu einnig ekki að mismuna atvinnugreinum. Ég vona því að ríkisstjórnin ráðist í enn frekari skattalækkanir og einfaldi þar með skattkerfið á næstu árum.

Þá væri gaman að sjá aukna alþjóðavæðingu eiga sér stað en ég held að fátt myndi koma sér betur fyrir Ísland en að laða að sér talsvert af erlendum einstaklingum og fyrirtækjum til þess að hrista upp í hlutunum og veita íslenskum vinnumarkaði aðhald. Aðrar þjóðir hafa gert annað eins og njóta nú góðs af. Að öðru leiti ættu stjórnvöld ávallt að hafa framtíðina að leiðarljósi og gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja það að nýsköpun fái að njóta sín. En það eru einmitt frumkvöðlar heimsins sem taka óumbeiðnir áhættu til þess að leysa þau vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Sem ungum Íslending langar mig að lifa í landi sem er í fremstu víglínu og þá þurfa stjórnvöld einfaldlega að leggja sitt af mörkum til þess að bjóða upp á þetta öryggi og frelsi. Þótt ég stikli hér á stóru þá er kjarni málsins sá að Ísland hefur allt til þess að verða fremst meðal þjóða. Langtímamarkmið og reynsla annara smáþjóða þurfa bara að vera okkur að leiðarljósi og þá ættu björtustu tímar Íslands einungis að vera handan við hornið.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×