Innlent

Ísland er næststærsta fiskveiðiþjóðin á Evrópska efnahagssvæðinu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Sá guli: Þorskur í kari á hafnarbakka. Ísland er neðarlega á topp 20 lista þeirra þjóða sem mestum afla landa í heiminum.
Sá guli: Þorskur í kari á hafnarbakka. Ísland er neðarlega á topp 20 lista þeirra þjóða sem mestum afla landa í heiminum. Fréttablaðið/GVA
Nýting sjávarafla hér á landi er með því allra besta sem gerist í heiminum þótt Íslendingar séu ekki sú þjóð sem hvað mest veiðir á heimsvísu. Þetta kemur fram í úttekt í nýjasta tölublaði efnahagsritsins Vísbendingar.

Þar kemur fram að undanfarin ár hafi Ísland verið í 15. til 20. sæti yfir þau lönd sem mestum sjávarafla landa í heiminum. Sé bara litið til Evrópska efnahagssvæðisins sést hins vegar hversu þungt sjávarútvegurinn vegur í samanburði við nágrannalöndin.

Nýjar tölur Eurostat, evrópsku hagstofunnar, sýna að fiskveiðar Íslands árið 2013 námu tæplega 1,4 milljónum tonna, sem er næstmesti aflinn á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) á eftir Noregi sem veiddi rúmar 1,9 milljónir tonna. Í þriðja sæti er svo Spánn með veiðar upp á rúm 882 þúsund tonn.

Innan EES er Ísland því með um einn sjötta af heildarveiðunum, líkt og bent er á í Vísbendingu, en Norðmenn veiddu nærri fjórðung.

„Þessi tvö EES-ríki, Ísland og Noregur, veiða samtals um 40 prósent af heildarveiði á svæðinu,“ segir í ritinu. Bent er á að yrði Ísland fullgildur aðili að Evrópusambandinu þá yrði landið þar mesta fiskveiðilandið með milli fjórðung og fimmtung aflans. „Ætla má að sjónarmið landsins myndu vega þungt í greininni,“ segir þar jafnframt.

Þá kemur fram í samantekt Vísbendingar að hér sé afli nýttur með skilvirkari hætti en víðast annars staðar. Nýting aflans sé best í Danmörku, á Íslandi og í Noregi.

„Og hinar þjóðirnar eru langt á eftir. Sérstaklega vekur athygli að Spánverjar eru miklu neðar. Íslendingar eru með um það bil fjórum sinnum betri nýtingu á sínum flota en Spánverjar og Hollendingar.“ Þetta er sagt benda til þess að hagkvæmnin í íslenskum sjávarútvegi sé miklu meiri en hjá þessum þjóðum.

„Væri sjávarútvegur innan Evrópusambandsins rekinn á samkeppnisgrunni væri staða íslensku útgerðanna mjög góð, enda eiga íslenskar útgerðir fyrirtæki innan Evrópusambandsins.“ 

Í grein Vísbendingar er líka slegið á sögusagnir um að íslenskum sjávarútvegi kynni að stafa hætta af spænska fiskveiðiflotanum yrði af aðild Íslands að Evrópusambandinu. Vegna reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika myndu aðeins íslenskar útgerðir hafa veiðiheimildir í íslenskri landhelgi.

Svipaðar sögur af Spánverjum hafi gengið bæði í Bretlandi og Danmörku. „En á báðum stöðum hefur þó útgerðin haldist í eigu og forsjá heimamanna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×