Lífið

Ísland er hvítasta land í heiminum

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl var staddur í Kulturhuset í Stokkhólmi í Svíþjóð í síðustu viku. Þar ræddi blaðamaðurinn og rithöfundurinn Philip Teir við Eirík um bók hans Illsku, sem hlotið hefur frábæra dóma í Svíþjóð og er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. „Við ræddum Illsku og þar með töluðum við auðvitað mikið um stöðuna í dag líka – þetta síversnandi ástand þar sem skandinavísku popúlistaflokkarnir ná alltaf meiri og meiri fótfestu.“

Eiríkur bjó bæði í Finnlandi og Svíþjóð á meðan hann skrifaði bókina og fylgdist með uppgangi þjóðernisflokkanna Svíþjóðardemókratanna og Sannra Finna. „Ég kom reyndar líka inn á mikilvægi þess að hætta að tala um popúlistaflokka, eiginlega – og kalla spaðann bara spaða, þetta eru nasistaflokkar,“ segir Eiríkur.

„Jimmie Åkesson er miklu nær mörgum frammámönnum hins eiginlega nasistaflokks en flestir sósíaldemókratar samtímans eru sósíaldemókrötum fjórða áratugarins. Þótt það séu líka mikilvæg atriði sem skilji að, þá eru líka mikilvægir þræðir sem sameina þá. Í Danmörku vill Folkepartiet nú til dæmis útvista rekstri á heimilum fyrir hælisleitendur og flóttamenn til þriðja heimsins, að hælisleitendur verði bara settir beint upp í flugvél og svo geymdir í Líbanon. Þetta á sér nánast beina samsvörun í fangabúðum í Das Generalgouvernement. Nasistar lögðu mjög hart að því að færa þetta allt út úr Þýskalandi, svo þýska fólkið þyrfti að verða sem minnst vart við óhugnaðinn og ætti auðveldara með að loka augunum. Svona eins og við lokum augunum fyrir því sem gerist í fataverksmiðjum í þriðja heiminum.“

En telur Eiríkur viðbrögðin við þessum flokkum hafa verið sambærileg á milli Norðurlanda? „Viðbrögðin hafa verið misjöfn á milli landanna. Danir vildu taka slaginn, ræða málin opið. Þar er mikil virðing borin fyrir opnum debatt, sem er þá oft kengrasískur líka. Svíar hafa viljað standa fast á því að vissa hluti ræði maður einfaldlega ekki – það sé ekkert til umræðu að sumir þjóðflokkar séu síðri en aðrir, sem dæmi. En niðurstaðan hefur verið sirka sú sama, að minnsta kosti hvað varðar vöxt flokkanna.“

Eiríkur segist telja Framsóknarflokkinn vera heldur ótýpískan í þessum efnum. „Að það skuli fyrst og fremst vera í höfuðborginni þar sem þeir finna sér sóknarfæri er áhugavert. Víðast hvar annars staðar eiga flokkar af þessu tagi meiru fylgi að fagna á jaðarsvæðum.

Framsóknarflokkurinn flutti inn þessa retórík meira og minna óbreytta og skeytti henni inn í stefnuskrána sína. Að „vernda þjóðareinkennin“ og að múslimum fylgi einhver barbarismi. Að þeir hugsi bara um að umskera börn, plotta hryðjuverk og taka undir sig heiminn, og að þetta standi nú allt í kóraninum,“ segir Eiríkur. „Svíþjóðardemókratarnir eru stofnaðir upp úr félagsskap sem beinlínis heitir Höldum Svíþjóð sænskri, og þeir eru mjög uppteknir af sænskleikanum. En nú er Jimmie Åkesson víst útbrenndur, hann hefur meldað sig inn veikan næstu vikurnar. Í tilkynningunni segir að hann skilji ekki hvers vegna honum liði svona illa, þrátt fyrir stóran kosningasigur. Hann fattar ekki að honum líður illa vegna þess að hann er nasisti.“

Hvernig kemur það til að röksemdirnar gegn íslam á Norðurlöndunum séu oft svo keimlíkar? „Það er sýnt og sannað að fólk óttast fyrst og fremst einhverja óséða framtíð. Það óttast það sem það hefur ekki upplifað. Sá sem hefur séð unglingsstelpur í hijab rífa kjaft eða frussa út úr sér kóki í hláturskasti eða bara hanga í Candy Crush í strætó sér strax að þær eru bara alveg eins og aðrar unglingsstelpur. Fylgi nasistaflokkana er mest á svæðum þar sem ekki er mikið um útlendinga,“ segir Eiríkur. „Við óttumst ósýnileg skrímsli. Kannski er þar komin skýringin á Framsóknarfylginu í RVK – útlendingar á Íslandi eru mikið til einmitt frekar ósýnilegir. Ísland er hvítasta land í heimi. Það vita allir að það er mikið af útlendingum í Reykjavík, en maður verður ekkert gríðarlega var við þá.

Þessi retórík sigtar inn á það – að lýsa annars vegar mögulegri ömurlegri framtíðarsýn og hins vegar einhverju sem gerist á bak við luktar dyr. Að lýsa því sem við sjáum ekki og vitum ekki. Það getur enginn haldið því fram að verði byggð moska í Reykjavík muni aldrei verða skipulögð hryðjuverk þar, því það er ekki til nein moska og framtíðin er algjörlega óráðin. En svo þarf heldur enginn að færa rök fyrir því hvers vegna það sé ekki hætta á því að fólk skipuleggi hryðjuverk á Mokka.“

Eiríkur segir að ímyndunaraflið nái mjög langt ef það er sett í gang. „Sharialög, heimilisofbeldi og þvíumlíkt. Fólk þykist alltaf visst um að nágranninn frá Pakistan berji börnin sín, enda er alltaf einhver furðuleg lykt úr íbúðinni hans, og svo er hann voða afundinn í lyftunni og víst nýbúinn að missa vinnuna vegna hroka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×