Fótbolti

Ísland á eitt af óvæntustu úrslitunum í undankeppni EM 2016

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar öðru mark sinna á móti Hollandi.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar öðru mark sinna á móti Hollandi. Vísir/Andri Marinó
Það hefur verið þó nokkuð um óvænt úrslit í undankeppni Evrópumóts landsliða í fótbolta og UEFA-síðan hefur tekið saman fimm óvæntustu úrslitin eða „Five shocks" eins og þeir komast að orði.

Sigur íslenska landsliðsins á því hollenska á Laugardalsvellinum í október var að sjálfsögðu eitt af þessum sjokk-úrslitum en Gylfi Þór Sigurðsson skoraði þá tvö mörk í 2-0 sigri á bronsliði Hollands frá HM fyrr um sumarið.

Aðrar þjóðir sem unnu óvænta sigra í upphafi undankeppninnar og komust á listann yfir fimm óvæntustu sigrana eru Albanía, Pólland, Slóvakía og Færeyjar.

Albanía vann 1-0 útisigur á Portúgal í september, Pólland vann 2-0 sigur á heimsmeisturum Þýskalands í október, Slóvakía vann 2-1 heimasigur á Spáni í október og Færeyingar unnu 1-0 útisigur á Grikkjum í nóvember.

Myndbandið með óvæntustu úrslitunum á UEFA-síðunni má finna hér.

Íslenska fótboltalandsliðið er í öðru sæti í sínum riðli eftir fjórar umferðir en liðið mætir næst Kasakhstan í Astana í lok mars. Tékkar eru með 12 stig, Ísland hefur 9 stig og Holland er með 6 stig. Tékkar mæta Lettum á sama tíma og Hollendingar taka á móti Tyrkjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×