Erlent

Íslamska ríkinu kennt um sjálfsvígsárásina í Istanbúl

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fólk kemur sér burt af svæðinu sem var afgirt í Istanbúl eftir árásina í gær.
Fólk kemur sér burt af svæðinu sem var afgirt í Istanbúl eftir árásina í gær. vísir/EPA
Að minnsta kosti níu af þeim 25 sem létust eða særðust í sjálfsvígsárásinni í Istanbúl í gær voru Þjóðverjar. Þýskir ráðamenn segja líklegt að einhverjir Þjóðverjar séu meðal hinna látnu.

Recep Tayyip Erdogan forseti fullyrðir að árásarmaðurinn hafi verið af sýrlenskum uppruna. Ahmet Davutoglu forsætisráðherra segir hann hafa verið liðsmann Daish-samtakanna, eða Íslamska ríkisins svonefnda.

Tíu manns voru sagðir látnir og fimmtán særðir, þar af voru tveir enn í lífshættu.

Árásarmaðurinn sprengdi sjálfan sig í loft upp á fjölförnum ferðamannastað í gamla hluta borgarinnar, skammt frá Bláu moskunni og kirkjunni Hagia Sophia, sem nú er safn. Þetta gerðist klukkan rúmlega tíu að staðartíma, eða laust upp úr klukkan átta að íslenskum tíma.

Fyrir rúmu ári sprengdi kona sig í loft upp við lögreglustöð á sömu slóðum. Einn lögreglumaður lét þar lífið.

Undanfarna mánuði hafa nokkrar mannskæðar sprengjuárásir verið gerðar í Tyrklandi. Meira en hundrað manns létu lífið í höfuðborginni Ankara í október, þegar tvær sjálfsvígsárásir voru gerðar þar samtímis. Þá létu meira en 30 manns lífið í júlí í sprengjuárás í bænum Suruc, sem er skammt frá landamærum Sýrlands.

Tyrknesk stjórnvöld hafa kennt Daish-samtökunum um þessar árásir.

Í suðausturhluta Tyrklands, þar sem Kúrdar búa einkum, hafa enn fremur verið harðnandi átök undanfarna mánuði, eða allt frá því vopnahlé milli Kúrda og Tyrkja var rofið í júlí síðastliðnum.

Vopnahléið hafði staðið í tvö ár og vakið vonir um að sættir væru smám saman að takast eftir meira en tveggja áratuga vopnaða baráttu Kúrda fyrir sjálfstjórn.

Í sumar sem leið fengu tyrknesk stjórnvöld stuðning frá NATO til að hefja árásir á hryðjuverkamenn, og tilgreindu Tyrkir í rökstuðningi sínum til NATO að hætta stafaði bæði frá Kúrdum og frá Daish-samtökunum.

Tyrkir hafa þó verið sakaðir um að beina árásum sínum frekar að Kúrdum en að Daish-samtökunum, sem um leið grefur undan baráttu Kúrda gegn Daish í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×