Erlent

Íslamska ríkið réðst á flóttamannabúðir

Samúel Karl Ólason skrifar
Yarmouk er hverfi í höfuðborg Sýrlands, þar sem um 18 þúsund flóttamenn halda til.
Yarmouk er hverfi í höfuðborg Sýrlands, þar sem um 18 þúsund flóttamenn halda til. Vísir/AFP
Vígamenn ISIS hafa ráðist á flóttamannabúðirnar Yarmouk í Damascus, höfuðborg Sýrlands. Þar halda um 18 þúsund palestínskir flóttamenn til sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín. Komið hefur til átaka á milli vígamannanna og íbúa búðanna.

Samkvæmt BBC er þetta í fyrsta sinn sem ISIS gerir árásir á höfuðborgina. Þrátt fyrir að stór hluti Sýrlands og Írak, sé í haldi ISIS.

Unrwa, sem eru hjálparsamtök Sameinuðu þjóðanna gagnvart Palestínu, segja að bardagar í Yarmouk ógni lífi flóttamanna og að þar af séu fjölmörg börn. Samtökin fara fram á að bardögum verði hætt og að þeim verði gert kleift að aðstoða fólkið í búðunum.

Yarmouk búðirnar voru byggðar árið 1948 og þegar mest var bjuggu þar um 150 þúsund Palestínumenn. Átök á milli stjórnarhers Sýrlands og uppreisnarhópa hafa hins vegar leikið íbúa búðanna grátt.

Nú búa þar um 18 þúsund Palestínumenn, sem eiga erfitt með að verða sér út um matvæli, hreint vatn og rafmagn.

Talið er að meira en 200 þúsund Sýrlendingar hafi fallið í borgarastyrjöldinni þar í landi, sem staðið hefur yfir í rúm fimm ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×