Erlent

Íslamska ríkið í Afganistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Fáni Íslamska ríkisins er farinn að sjást í Suður-Afganistan.
Fáni Íslamska ríkisins er farinn að sjást í Suður-Afganistan. Vísir/AP
Samtökin Íslamskt ríki, sem segjast hafa stofnað Kalífadæmi í Sýrlandi og Írak eru nú að koma sér fyrir í Afganistan samkvæmt afganska hernum. Samkvæmt þeim vinna menn á vegum ISIS nú að því að safna mönnum í suðurhluta landsins.

Maður að nafni Mullah Abdul Rauf, er sagður vera að safna fylgjendum saman. Þó hafa þeir lent í átökum við Talíbana, en leiðtogar þeirra hafa varað fólk við því að umgangast Rauf. Þetta kemur fram á vef Independent.

Íslamska ríkið stjórnar stórum svæðum í Sýrlandi og Írak og er gífurlega vel fjármagnað.

Afganski hershöfðinginn Mahmood Khan, segir íbúa Helmand héraðsins hafa tilkynnt að menn á vegum Rauf fari nú um héraðið og reyni að fá fólk til að ganga til liðs við IS. Þá hefur AP fréttaveitan eftir hershöfðingjanum að Rauf hafi einnig reynt að fá klerka og leiðtoga ættbálka til liðs við sig.

„Fólk segir að hann hafi reist svarta fána og jafnvel reynt að taka niður fána Talíbana á ýmsum svæðum,“ segir ættbálkaleiðtogin Saifullah Sanginwal við AP. „Við höfum fengið tilkynningar um að 19 eða 20 manns hafi látið lífið í átökum á milli ISIS og Talíbana.

Mullah Abdul Rauf, var á árum áður hershöfðingi fyrir ríkisstjórn Talíbana, áður en Bandaríkin gerðu innrás í Afganistan. Héraðsstjórinn Amir Mohammad Akundzada, sem er skildur Rauf, segir að hann hafi ekki sést í tuttugu ár.

Hann var handsamaður af bandaríska hernum og var um árabil fangi í Guantanamo fangelsinu á Kúbu. Nú er talið að hann sé kominn í ónáð hjá leiðtogum Talíbana eftir að hann fór á fund þeirra í Pakistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×