Erlent

ISIS-liðar bjuggu í göngum undir Sinjar - Myndband

Samúel Karl Ólason skrifar
Á myndbandi sem tekið var upp nýverið má sjá hvernig vígamennirnir höfðu dreift dýnum um gólf ganganna.
Á myndbandi sem tekið var upp nýverið má sjá hvernig vígamennirnir höfðu dreift dýnum um gólf ganganna.
Vígamenn Íslamska ríkisins bjuggu í göngum undir borginni Sinjar í Írak. Göngin grófu þeir til að skýla sér undan loftárásum Bandaríkjanna og bandamanna þeirra. Vopnaðar sveitir Kúrda hafa nú endurheimt borgina úr höndum ISIS eftir harða bardaga.

Á myndbandi sem tekið var upp nýverið má sjá hvernig vígamennirnir höfðu dreift dýnum um gólf ganganna. Þar má einnig sjá tóma skotfærakassa, lyfjapakka og búnað til sprengiefnaframleiðslu.

Á vef Sky News segir að hlutar gangnanna hafi verið styrktir með sandpokum, en blaðamaðurinn Eddy van Wessel, sem tók upp myndbandið segir göngin hafa verið nokkur hundruð kílómetra löng. Þau voru grafin á milli húsa í borginni.

Borgin tilheyrði Jasídum áður en ISIS tók hana í ágúst í fyrra. Þúsundir flúðu upp á nærliggjandi fjall þar sem þau voru umkringd af vígamönnum. Vígamennirnir myrtu fjölda Jasída á þeim tíma og hrepptu fjölmarga í þrældóm.

Sjá einnig: Raunir Jasída Kynlífsþrælkun, þjóðarmorð og misþyrming

Öfgasamtök eins og Íslamska ríkið líta á Jasída sem djöfladýrkendur og ljóst er að þeir hafa ekki komið fram við þá eins og manneskjur. Gífurlegur fjöldi þeirra flúði heimili sín og heldur stór hluti þeirra til í flóttamannabúðum á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í norðurhluta Írak.

Hér má svo sjá umfjöllun Vice um baráttuna um Sinjar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×