Erlent

ISIS-liðar eyðileggja 3.000 ára gamla fornmuni

Atli Ísleifsson skrifar
Elstu munirnir sem skemmdir voru eru frá 9. öld fyrir Krist.
Elstu munirnir sem skemmdir voru eru frá 9. öld fyrir Krist.
Liðsmenn ISIS hafa birt myndband sem sýnir þá eyðileggja ævaforna muni á safni í íröksku borginni Mosul.

Myndbandið er um fimm mínútur á lengd þar sem sést hvernig ISIS-liðar notast við sleggjur og bora til að eyðileggja fjölda stórra styttna. Á meðal styttnanna er ein af vængjaðri gyðju frá 9. öld fyrir Krist og önnur frá 7. öld fyrir Krist.

Myndbandið er með fána ISIS í horninu og var birt á einni Twitter-síðu samtakanna.

Liðsmenn samtakanna hafa eyðilagt fjölda múslímskra helgistaða í tilraun til að eyða því sem þeir kalla villitrú. Í janúar brenndu ISIS-liðar þúsundir fornra handrita og sjaldgæfra rita.

Í frétt Mashable segir að talið sé að ISIS-liðar hafi einnig selt fjölda fornmuna á svörtum markaði til að fjármagna herferð sína í heimshlutanum.

Að neðan má sjá brot úr myndbandinu þar sem ISIS-liðar eyðileggja fornmunina á safninu í Mosul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×