Erlent

ISIS gerir skyndisókn í norðurhluta Sýrlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Vígamenn Íslamska ríkisins hafa hernumið nokkur þorp í Sýrlandi, norður af borginni Aleppo. Íranskur hershöfðingi var felldur í skyndisókn vígamanna gegn uppreisnarhópum í landinu. Ríkisrekinn fjölmiðill Íran segir að hershöfðinginn Hossein Hamedani hafi verið felldur af vígamönnum við jaðar Aleppo.

Á meðan stjórnarherinn og Rússar herja gegn uppreisnarhópunum á sunnanverðu yfirráðasvæði þeirra með loftárásum og nú landhernaði, gerðu vígamenn ISIS skyndisókn í norðri nærri landamærum Sýrlands og Tyrklands.

Hershöfðinginn Hossein Hamedani, leiðtogi Byltingarvarðar Íran.Vísir/AFP
Hamedani, leiddi hina svokölluðu Byltingarverði Íran, sem er stærsta og öflugasta herdeild landsins. Hann er sagður hafa verið í Aleppo sem ráðgjafi.

Yfirvöld í Rússlandi hafa haldið því fram að hernaðaraðgerðir þeirra í Sýrlandi beinist að mestu gegn Íslamska ríkinu, en vesturveldin og greiningaraðilar segja árásir Rússa beinast gegn uppreisnarmönnum í norðvesturhluta Sýrlands.

Íslamska ríkið er sagt hafa hernumið nokkur þorp en skyndisókn þeirra hófst í gærkvöldi. Þar ð auki tóku vígamenn herstöð sem uppreisnarmenn höfðu tekið af stjórnarhernum fyrir um tveimur árum.

Hamedani er hæst setti íranski hermaðurinn sem fellur í Sýrlandi, en fyrr á árinu lést hershöfðinginn Mohammad Ali Allahdadi í loftárás Ísrael í Sýrlandi gegn vígamönnum Hezbollah samtakanna frá Jórdaníu. Íran og Hezbollah hafa lengi stutt Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

Hér má sjá grófa stöðu mála á svæðinu á gagnvirku korti. Sem samtökin Institute for United Conflict Analysts hafa búið til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×