Erlent

ISIS felldi sjötíu í Pakistan

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fjölmargir liggja særðir á spítala.
Fjölmargir liggja særðir á spítala. Nordicphotos/AFP
Sjálfsmorðsárásarmaður réðst á musteri í suðurhluta Pakistans í gær og myrti að minnsta kosti sjötíu. Musterið sem um ræðir er musteri súfíska dýrlingsins Lal Shahbaz Qalandar og er í bænum Sehwan í Sindh-héraði.

Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) lýstu yfir ábyrgð á árásinni í gær. Fleiri sprengjuárásir hafa verið gerðar undanfarna viku og hafa pakistanskir talibanar lýst yfir ábyrgð á flestum þeirra.

BBC greinir frá því að 250 hið minnsta hafi særst í árásinni. Flesta þeirra hafi þurft að senda á spítala í borgunum Jamshoro og Hyderabad sem eru í nokkurri fjarlægð frá Sehwan.

„Undanfarnir dagar hafa verið erfiðir. Hugur minn er hjá fórnarlömbunum. En við megum ekki leyfa þessum árásum að sundra okkur og hræða. Við verðum að standa sameinuð í baráttunni fyrir pakistönskum gildum og almennri mannúð,“ segir í tilkynningu sem forsætisráðherrann, Nawaz Sharif, sendi frá sér í gær.

Á meðal árása undanfarna viku voru tvær sprengjuárásir í norðvesturhluta landsins á miðvikudag þar sem sjö manns féllu og sjálfsmorðsárás á mánudag þar sem þrettán létu lífið.

Súfismi er afbrigði af íslam. BBC greinir frá því að skæruliðahópar súnnímúslima í Pakistan fyrirlíti súfista og telji þá villutrúarmenn.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×