Erlent

ISIS einbeitir sér að þjálfun barna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hryðjuverkasamtökin sækja í auknum mæli í að þjálfa börn til hernaðar og líta á þau sem hreinræktaða vígamenn.
Hryðjuverkasamtökin sækja í auknum mæli í að þjálfa börn til hernaðar og líta á þau sem hreinræktaða vígamenn. Mynd/Skjáskot
Liðsmenn ISIS vinna hörðum höndum að því að þjálfa börn til þess að mynda nýja kynslóð hryðjuverkamanna. Frá fæðingu eru trúarkennisetningar innrættar í börnunum. Í nýrri skýrslu sem studd er af Sameinuðu þjóðunum kemur fram að liðsmenn ISIS líti á þessa nýju kynslóð sem hreinræktaðri liðsmenn ISIS.

Rannsakendur frá Qulliam, sérfræðingaráði sem sérhæfir sig í rannsóknum á hryðjuverkum, hafa kannað hvernig ISIS vinnur að því að fá börn til að ganga til liðs við samtökin. Allt að 50 börn frá Bretlandi alast nú upp á landsvæði ISIS auk þess sem áætlað er að um 30.000 erlendir vígamenn hafi gengið til liðs við ISIS í Sýrlandi til þess að berjast fyrir samtökin.

Fjallað er ítarlega um skýrsluna sem kemur út á miðvikudaginn í næstu viku í The Guardian. Þar kemur fram að ISIS sækist sérstaklega eftir því að fá börn til þess að ganga til liðs við sig. Mörg þeirra eru í þjálfun til þess að verða njósnarar, hermenn, böðlar og jafnvel sjálfsmorðsprengjuárásarmenn.

„Samtökin eyða miklum tíma í að innræta kennisetningar sínar í börnum með það að markmiði að ala upp hryðjuverkamenn framtíðarinnar. Þeir sem starfa við þetta telja að þessi börn verði betri og hreinræktaðari vígamenn vegna þess að þau alist upp við kennisetningar ISIS,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslunni kemur fram að ISIS ræni flestum börnum sem það setji í þjálfun hjá sér. Sameinuðu þjóðirnar í Írak telja að ISIS hafi rænt 800-900 börnum í Írak á undanförnum árum í þeim tilgangi að þjálfa þau til hernaðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×