Innlent

Stefna á opnun íshellisins í maí

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sprungan er um 5 metra og hægt er að sjá 100-200 metra inn í hana.
Sprungan er um 5 metra og hægt er að sjá 100-200 metra inn í hana. Mynd/IcecaveIceland
Verið er að grafa helli í Langjökul og kom fram í fréttum um daginn að fundist hefði sprunga í jöklinum þar sem verið er að grafa inn í hann. Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri IcecaveIceland, var gestur í Bítinu í morgun. Hann sagði sprunguna gera mikið fyrir verkefnið.

„Í rauninni er þetta það sem við vildum í upphafi. Við vorum orðnir úrkula vonar því við vorum komnir frekar langt inn í jökulinn og höfðum ekki fundið neina sprungu. Þar að auki vissum við ekki af sprungu á þessu svæði. Ástæðan fyrir því að þetta svæði var valið er að þarna eru lágmarkshreyfingar í jöklinum og fáar sprungur.“

Sigurður sagði að sprungan væri gríðarstór en starfsmenn IcecaveIceland komu inn nánast við botn hennar.

„Við erum komnir um það bil 170 metra inn í jökulinn og förum kannski 50 metra í viðbót. Við erum á svona 20 metra dýpi og nánast þarna í botninum á sprungunni, það eru einhverjir 4 metrar niður.“

Sprungan er um 5 metrar á breidd og maður sér 100-200 metra inn í hana, að sögn Sigurðar. Hann segir að IcecaveIceland ætli að lýsa sprunguna upp og gera svolítið úr henni.

Hlusta má á viðtalið við Sigurð í heild sinni í spilaranum hér að ofan en stefnt er að opnun hellisins í maí á næsta ári.

Mynd/IcecaveIceland



Fleiri fréttir

Sjá meira


×